Hall­dór Benja­mín Þorbergsson, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífsins er afar von­svikinn með á­kvörðun Seðla­bankans um vaxta­hækkanir sem kynnt var í dag og segir þær fleyg inn í kjara­við­ræður.

Þetta kom fram í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem rætt var við Hall­dór. Hann tók undir með Vil­hjálmi Birgis­syni, for­manni Starfs­greina­sam­bandsins sem sagði í kvöld­fréttum Stöðvar 2 að á­kvörðunin væri sjálfs­mark hjá Ás­geiri Jóns­syni, Seðla­banka­stjóra.

„Mér finnst það nú bara af­skap­lega vel orðað hjá for­manni SGS enda mátti heyra í dag á fundum okkar hjá ríkis­sátta­semjara að allt and­rúms­loft í við­ræðunum gjör­breyttist við þessa á­kvörðun,“ segir Hall­dór.

„Auð­vitað mátti gera að því skóna að hún gæti átt sér stað í dag en við trúðum því hins­vegar að seðla­banka­stjóri og peninga­stefnu­nefnd myndi hegða sér með öðrum hætti, til dæmis að lýsa því yfir að vöxtum yrði haldið ó­breyttum en myndu síðan á­skila sér rétt til að boða auka vaxta­á­kvörðunar­dag eftir að kjara­samningar liggja fyrir. Að því leytinu til er þessi á­kvörðun mikil von­brigði,“ segir fram­kvæmda­stjórinn.

Trúverðugleiki Seðlabankans hafi beðið hnekki

Hann segir Sam­tök at­vinnu­lífsins ó­sam­mála á­kvörðun Seðla­banka­stjóra. Hún sé ein­stak­lega illa tíma­sett. Hall­dór segir sár­græti­lega stað­reynd að Seðla­bankinn eigi að vera full­viss um stöðu kjara­við­ræðna áður en slík á­kvörðun er tekin.

„Það er bein­línis hlut­verk ríkis­sátta­semjara að halda Seðla­banka og ríkis­stjórn upp­lýstum um gang við­ræðna og það hefur gengið býsna vel hjá okkur undan­farna daga og mark­miðið hefur svo sem ekki breyst en þessi á­kvörðun í morgun er fleygur í síðu inn í þessar við­ræður og mun þyngja allt sem á eftir kemur. Mitt mat er það því miður að trú­verðug­leiki Seðla­bankans hafi beðið hnekki við þessa á­kvörðun og það er mikið vanda­mál upp á fram­haldið.“

For­svars­menn SA og SGS munu hittast á fundi í fyrra­málið vegna kjara­við­ræðna. Að­spurður hvort hann óttist að upp úr slitni segir Hall­dór:

„Mér finnst þetta sár­græti­leg staða sem Seðla­bankinn upp á sitt eins­dæmi hefur komið okkur í og ég hefði kosið að Seðla­bankinn hefði virt fleiri þætti við á­kvörðun sína meðal annars þá á hversu við­kvæmu stigi kjara­við­ræður voru.“