Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna mun leggja á bilinu 28 til 48 prósenta innflutningstolla á íslenskan kísilmálm, að því er kemur fram í opinberum upplýsingum frá þar til bærum bandarískum yfirvöldum. Rannsókn á innflutningi kísilmálms frá fjórum löndum og hugsanlegri undirverðlagningu á Bandaríkjamarkaði, lauk í síðasta mánuði en gögn málsins voru nýlega birt.

Um er að ræða kísilmálm frá Íslandi, Kasakstan, Bosníu-Herse­góvínu og Malasíu. Innflutningstollar á kísilmálm frá Bosníu og Malasíu munu vera á bilinu 12 til ríflega 21 prósent. Innflutningstollar á íslenska málminn eru hins vegar hærri, eða á bilinu 28 til 48 prósent.

Í sumar óskuðu tveir stærstu framleiðendur kísilmálms í Bandaríkjunum eftir því við viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna að innflutningstollar yrðu lagðir á kísilmálm frá Íslandi, Malasíu, Kasakstan og Bosníu.

Að sögn Ferroglobe og Mississ­ippi Silicon, sem samanlagt stýra meira en helmingi allrar kísilmálmframleiðslu í Bandaríkjunum, njóta framleiðendur landanna fjögurra ósanngjarns samkeppnisforskots. Því er náð fram með því að selja kísilmálm á niðursettu verði í krafti niðurgreiðslna við framleiðslu (e. dumping). Var því haldið fram að innflutningsverð á málmi frá löndunum fjórum væri á bilinu 54-85 prósentum lægra en eðlilegt gæti talist.

Fram kemur í skýrslu um málið að PCC, sem er sagt að baki öllum innflutningi kísilmálms frá Íslandi til Bandaríkjanna, hafi skilað skriflegum svörum til rannsóknarnefndar sem hafði málið til umfjöllunar. Deilan snerist að miklu leyti um hvort sú vara sem PCC hefði flutt til Bandaríkjanna væri sambærileg þeirri sem bandarísku framleiðendurnir seldu. Bandarísku framleiðendurnir héldu því fram að eiginleikar þess kísilmálms sem PCC framleiðir væru með þeim hætti að söluverð ætti að vera miklu hærra en raun ber vitni, en því mótmælti PCC.

Rannsóknarnefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að vara PCC væri fullkomlega útskiptanleg við bandaríska málminn og því væru umkvartanir bandarísku framleiðendanna réttlætanlegar.

Fram kemur að innflutningur á kísilmálmi frá Íslandi til Bandaríkjanna hafi verið um það bil 8.900 tonn á árunum 2017 til 2019, en gengið er út frá því að það hafi nánast allt komið frá PCC á Bakka. Árleg afkastageta verksmiðjunnar er 32 þúsund tonn, en full afköst verksmiðjunnar náðust hins vegar ekki fyrr en í október á síðasta ári. Heildarframleiðsla PCC frá upphafi er raunar ríflega 32 þúsund tonn, en ríflega fjórðungur framleiðslunnar fór til Bandaríkjanna. Ekki er ljóst hvaða áhrif bandarískir innflutningstollar á íslenskan kísilmálm hafa á rekstrargrundvöll PCC á Bakka. Ekki náðist í Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóra PCC á Bakka.

Bæði Ferroglobe og Mississippi Silicon, einkum hið fyrrnefnda, eiga í töluverðum rekstrarvanda um þessar mundir. Fyrr í sumar var lánshæfiseinkunn Ferroglobe færð úr B- í CCC+, en slík lánshæfiseinkunn er djúpt í svokölluðum ruslflokki. Versnandi horfur á heimsmarkaði kísilmálms eru meginástæða lækkandi lánshæfiseinkunnar Ferroglobe.

Verð á kísilmálmi í Bandaríkjunum hefur lækkað jafnt og þétt síðastliðin tvö ár. Samkvæmt gögnum frá US Geological Survey, sem skráir meðal annars mánaðarlega meðalverð á ýmsum málmum, hefur verðið lækkað úr tæplega 1,4 dölum á pundið um mitt ár 2018, í um 0,95 dali um mitt þetta ár. Um er að ræða ríflega þriðjungslækkun, en um sama leyti var tilkynnt um rannsókn yfirvalda í Bandaríkjunum á innfluttum kísilmálmi.