Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, sagði á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun, að gera þurfi hlutina öðruvísi á vinnumarkaði.

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs.

„Ef við horfum alla leið aftur til ársins 1973 hafa laun hækkað um 211 þúsund prósent. Af því skiluðu 0,09% af hverri krónu auknum kaupmætti. Það blasir við að eitthvað þarf að gera öðruvísi. Hlutur launa í verðmætasköpuninni hér á landi er hár í alþjóðlegu og sögulegu samhengi. Það er eitthvað sem verkalýðshreyfingin getur verið stolt af. Jafnframt þurfum við að horfast í augu við að möguleikar til þess að hækka laun áfram umfram svigrúm eru takmarkaðir án þess að það hafi einhverjar afleiðingar," sagði Ari í opnunarávrpi sínu og bætti við að þær afleiðingar hafi haft áhrif á verðbólguna og gengi krónunnar.

„Ef laun hækka sérstaklega sem viðbragð við verðbólgu mun það aftur auka verðbólguþrýsting, - sem aftur þýðir auknar launakröfur. Við þekkjum þessa sögu alltof vel, allir tapa og enginn vinnur."

Í erindi Ara kom jafnframt fram að hann hafi fulla trú á því að hægt sé að tryggja betur að launaþróun hér á landi sé sjálfbær.

„Ég hef fulla trú á því að hægt sé að tryggja betur að launaþróun hér á landi sé sjálfbær. Að hún sé í samræmi við framleiðni og 2,5% verðbólgumarkmið. Bæði til að tryggja kaupmátt en einnig til að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að skapa verðmætin sem eru forsenda kaupmáttar. Við í Viðskiptaráði höfum í þessum samhengi lengi horft til norræna vinnumarkaðsmódelsins. Þar eru kjarasamningar ávallt bundnir af stöðu og horfum í efnahagsmálum. Leiðir til úrbóta eru eflaust fleiri."