Allir íbúar á Íslandi 18 ára og eldri fá stafrænt gjafabréf frá stjórnvöldum. Þannig vilja stjórnvöld hvetja til ferðalaga innanlands og veita íslenskri ferðaþjónustu beinan stuðning.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Efnahagslegar aðgerðir sem nema 230 milljörðum króna voru kynntar á blaðamannafundi í Hörpu í dag. Áætlað er að kostnaður ríkisins við stafrænu gjafabréfin muni nema 1,5 milljörðum króna en nánari útfærsla er í vinnslu í samvinnu við heildarsamtök ferðaþjónustufyrirtækja.

Þá verður gistináttagjaldið verður fellt niður til ársloka 2021 og gjalddaga fyrstu þriggja mánaða 2020 er frestað til febrúar 2022. Umfang þessarar lækkunar er áætlað 1,6 milljarðar króna á tímabilinu.

Einnig verður 1,5 milljörðum króna varið í markaðsátak fyrir Ísland sem áfangastað. Átakið verður umsvifalaust sett í undirbúning og hrint í framkvæmd þegar flugsamgöngur opnast aftur. Þannig vilja stjórnvöld styrkja viðspyrnu ferðaþjónustunnar þegar hlutirnir komast í eðlilegt horf.