Allir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabankans studdu tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Stýrivextir lækkuðu í 3,5 prósent. Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar.

Í nefndinni sitja Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar; Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur, Gylfi Zoëga, prófessor, utanaðkomandi nefndarmaður og Katrín Ólafsdóttir, lektor, utanaðkomandi nefndarmaður.

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fram kom í umræðu nefndarmanna að hagvaxtarhorfur væru mögulega ofmetnar, meðal annars þar sem alþjóðlegur hagvöxtur gæti reynst minni en gert er ráð fyrir – ekki síst vegna vaxandi óvissu í alþjóðlegum efnahagsmálum.

Einnig var bent á að það ætti eftir að koma í ljós hvernig fyrirtækjum í ferðaþjónustu myndi vegna í vetur. Fram kom í umræðunni að minni umsvif á fasteignamarkaði og samdráttur fjárfestingar og innflutnings þrátt fyrir aukinn kaupmátt launa gætu bent til þess að aðilar teldu að staða efnahagsmála væri lakari en hún væri í raun.

„Því væri rétt að lækka vexti bankans til þess að örva fjárfestingu og fasteignamarkaðinn ásamt því að draga úr svartsýni. Á móti var bent á að verðbólga væri enn yfir markmiði, innlendur verðbólguþrýstingur hefði aukist á nokkra mælikvarða, horfur væru á að launakostnaður á framleidda einingu myndi aukast um hátt í 7 prósent á þessu ári og ekki væri búið að ljúka kjarasamningum opinberra starfsmanna. Því væri einnig mikilvægt að stíga varlega til jarðar,“ segir í fundargerðinni.

Nefndarmenn voru sammála um að tekist hefði að veita langtímaverðbólguvæntingum traustari kjölfestu sem gerði það að verkum að svigrúm væri fyrir hendi til að mæta efnahagssamdrættinum með slökun á taumhaldi peningastefnunnar. „Einnig var bent á að áhrif gengislækkunar krónunnar á verðlag hefðu verið tiltölulega hófleg og mætti líklega að einhverju leyti einnig rekja það til aukins trúverðugleika peningastefnunnar og betri kjölfestu verðbólguvæntinga,“ segir í fundargerðinni.