Þorsteinn Friðrik Halldórsson
Miðvikudagur 12. febrúar 2020
06.00 GMT

Fjórða iðnbyltingin og allt það sem fylgir henni þýðir að samkeppnishæfni landsins ræðst af traustum og þróuðum innviðum. Fjárfestingakapphlaup mun hins vegar leiða af sér gríðarlega sóun og hærri kostnað til viðskiptavina og fyrirtækja,“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, í samtali við Markaðinn.

Sýn, Síminn og Nova tilkynntu undir lok síðasta árs að fyrirtækin hefðu undirritað vilja­yfir­lýsingar um við­ræður um mögu­leika á sam­nýtingu og sam­starfi við upp­byggingu fjar­skipta­inn­viða.

„Viðræður eru enn á byrjunarstigi en það liggur í augum uppi að fram undan er uppbygging í 5G þannig að ætla má að hún verði það fyrsta sem við horfum til. Hvað okkur varðar horfum við til þess hvernig fyrirtæki hafa verið að gera þetta víða erlendis en uppbygging fjarskiptakerfa er í flokki afar mikilvægra innviðafjárfestinga,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

Ávinningurinn af samstarfi felst í hag­kvæmri nýtingu fram­leiðslu­þátta þjóð­fé­lagsins, minna umhverfisraski og auknu al­manna­öryggi. Staðan í dag er þannig að víða eru sams konar innviðir frá mismunandi fyrirtækjum hlið við hlið þar sem lítil eða engin forsenda er fyrir samkeppni. Fyrirtækin eru að skoða samstarf um þá innviði sem veita ekki mikið forskot í samkeppni innbyrðis en eru dýrir og valda miklu raski.

„Forsendur sem lagðar eru til grundvallar á EES-svæðinu eru að virk samkeppni sé best til þess fallin að tryggja aðgengi, uppbyggingu og framþróun fjarskiptakerfa,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

„Það getur hins vegar verið að í ákveðnum atriðum og á ákveðnum svæðum séu markaðsbrestir og erfitt að koma við samkeppni, og þá þarf sérstaklega að taka á því,“ segir Páll Gunnar.

„Ef kerfið ætti að dekka svipuð svæði og önnur farsímakerfi gera í dag þá held ég að fjárfestingin geti hlaupið á mörgum tugum milljarða ef fyrirtækin ákveða að gera þetta hvert í sínu horni.“

Viðræðurnar munu að miklu leyti snúa að uppbyggingu á 5G-kerfum sem verður grunnstoðin að því sem sem hefur verið nefnt fjórða iðnbyltingin og internet hlutanna (IoT). Hún mun krefjast umtalsverðra fjárfestinga í bæði farnetum og ljósleiðaranetum á næstu árum.

„Fyrsta útgáfan af 5G er náttúrulegt framhald af 4G en ef við ætlum okkur að byggja upp alvöru 5G-kerfi, sem er með hundrað sinnum fleiri senda en í 4G á vissum svæðum, þá er það risavaxið verkefnið. Ef kerfið ætti að dekka svipuð svæði og önnur farsímakerfi gera í dag þá held ég að fjárfestingin geti hlaupið á mörgum tugum milljarða ef fyrirtækin ákveða að gera þetta hvert í sínu horni. Til þess að tækifærin sem felast í 5G nýtist sem flestum íbúum landsins þarf að haga uppbyggunni með eins hagkvæmum hætti og unnt er. Þar getur skynsamleg samnýting innviða og samstarf í uppbyggingu verið lykilatriði,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

„Notendur gera sífellt meiri kröfur og nú þegar bílar, armbandsúr og nýjustu heimilistækin eru öll tengd við netið þurfa fjarskiptakerfin að vera undirbúin. Nova hefur lagt út í umtalsverða fjárfestingu til að vera á undan þörfinni fyrir aukna flutningsþörf og höfum við til að mynda hafið prófanir á 5G,“ segir Margrét.

Óveðrið var kveikjan

Orri segir að lengi hafi verið á sveimi óformlegar hugmyndir um að auka samstarf. Óveðrið sem gekk yfir fyrir jól hafi varpað ljósi á veikleika í innviðum landsins og ýtt við fjarskiptafyrirtækjunum að gera alvöru úr því að hefja viðræður. Snjóflóðið á Flateyri í byrjun þessa árs og jarðhræringar á Reykjanesi hafa síðan aukið þrýstinginn í þessum efnum.

„Í fyrsta lagi varðar þetta stöðuna eins og hún er í dag. Þegar rafmagnið fór af í óveðrinu sáum við að það eru veikleikar í kerfinu. Það væri hægt að hafa traustara og praktískara aðgengi að fyrsta flokks sambandi víðar en í núverandi kerfum með því að vinna betur saman. Síðan varðar þetta framtíðina þegar kemur að lagningu ljósleiðara, 5G-væðingu, interneti hlutanna (IoT) og fleiru. Við erum bæði að tala um nútíð og framtíð,“ segir Orri.

„Það er mikið af stöðum úti á landi þar sem fjárfesting hefur verið lítil vegna þess að Míla hefur verið í fjárfestingakapphlaupi við Gagnaveitu Reykjavíkur.“

„Auðvitað verður alltaf að vera hörð samkeppni til staðar en það má samnýta miklu fleiri þætti en við höfum verið að gera hingað til. Innviðamál á Íslandi eru snúin að mörgu leyti. Bæði vegna veðurfars og náttúruafla, og vegna þess að við erum ekki nema 360 þúsund manns í stóru landi. Það að vera með frábæra innviði úti um allt land er ekki sjálfgefið. Við höfum hins vegar verið lánsöm með góða innviði miðað við önnur þéttbýlli lönd,“ segir Orri sem bendir á að Ísland sé með öflugustu fjarskiptainnviði heims samkvæmt síðustu uppfærslu á ICT-vísitölunni sem Sameinuðu þjóðirnar halda utan um.

„Eitthvað erum við að gera rétt en aftur á móti erum við að glíma við mikið ójafnvægi í uppbyggingu á innviðum. Hún er mikil sums staðar en annars staðar minni. Það er mikið af stöðum úti á landi þar sem fjárfesting hefur verið lítil vegna þess að Míla hefur verið í fjárfestingakapphlaupi við Gagnaveitu Reykjavíkur, sem hefur rúllað út ljósleiðaraneti á suðvesturhorninu sem niðurgreitt er úr opinberum sjóðum,“ segir Orri. Þannig sé búið að sóa milljörðum á suðvesturhorninu á sama tíma og það vantar fjárfestingu úti á landi.

„Þessu má líkja við manninn sem er með annan fótinn í sjóðandi heitu vatni, hinn fótinn í ísbaði en líður að meðaltali vel,“ segir Orri.

Heiðar segir að málið snúist í grunninn um öryggi innviða, sjálfbæra þróun og það að geta gert meira fyrir minna.

„Við verðum miklu fyrr að byggja uppp kerfi sem dekkar allt landið og uppfyllir þessi skilyrði ef við vinnum saman. Ef þetta verður aftur á móti þannig að hvert fyrirtæki byggir innviði upp á eigin spýtur þá fara þau öll beint á arðbærasta svæðið sem veldur offjárfestingu á því svæði en vanfjárfestingu á öðrum,“ segir Heiðar.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.
SÝN

Þá nefnir hann að 5G-kerfið krefjist margfalt fleiri sendastaða og hver sendir noti margfalt meiri orku en langdrægu sendarnir sem notast er við í dag.

„Markmiðið er að byggja upp öruggara og heildstæðara kerfi með minna raski, minni orkunotkun og minni kostnaði. Það mun felast gríðarleg orkusóun og óþarfa uppbygging í því að hvert fyrirtæki reki sitt kerfi. Við viljum ekki endurtaka tvíverknaðinn sem á sér stað þegar tvö fyrirtæki grafa tvo skurði til að tengja ljósleiðara í sama húsi,“ segir Heiðar.

Eftirlitsstofnanir jákvæðar

Fjarskiptafyrirtækin þrjú hafa hvert fyrir sig átt fund með Samkeppniseftirlitinu og Póst- og fjarskiptastofnun til að kynna hugmyndir að mögulegu samstarfi.

„Við útskýrðum fyrir eftirlitsstofnununum hvernig við erum að leggja upp fyrstu drög að þessum umræðum. Þeir voru ánægðir og sáttir við það upplegg,“ segir Orri. Spurður um tímaramma segir Orri að hann geri sér ekki of miklar væntingar um að þær gangi hratt fyrir sig.

„Aftur á mótum viljum við ekki sitja of lengi yfir þessu. Til þess að ferlið gangi vel fyrir sig höfum við reynt að afmarka málið í ákveðna þætti og viljum búa til sviðsmyndir yfir mögulegar útfærslur.“

Heiðar segir að eftirlitsstofnanirnar hafi verið jákvæðar í garð þessara hugmynda enda sé að verða eðlisbreyting á fjarskiptum. Sítengd tæki séu að koma til sögunnar og þá skipti máli að hafa fjarskiptin í lagi.

„Við sjáum þróun í átt að auknu samstarfi í Evrópu og víðar þar sem fyrirtæki og stjórnvöld eru að kanna með hvaða hætti eigi að byggja upp 5G-kerfin. Nú erum við að leggja grunninn að því hvernig hægt er að vinna þetta áfram,“ segir Heiðar.

Liggja hagsmunir fyrirtækjanna saman?

„Auðvitað eru þetta viðkvæmar viðræður og menn passa að misstíga sig ekki þegar keppinautar tala saman. Þetta eru ólík fyrirtæki með mismunandi áherslur en í einföldustu mynd eru hagsmunirnir svipaðir, það er að segja, að byggja upp sem best kerfi fyrir sem minnst fé,“ segir Orri.

Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Hann telur mikilvægt að nýta meðbyrinn í ljósi þess að ríkisstjórnin hafi mótað stefnu í fjarskiptum til ársins 2033 sem kveður á um að rétt sé að innviðafjárfestingum staðið og horft sé til hagstæðrar samnýtingar framkvæmda og innviða.

Auk þess sé von á tillögum frá átakshópi sem falið er að meta hvaða aðgerðir séu færar til að efla innviði, meðal annars í fjarskiptum, til að tryggja að þeir séu sem best í stakk búnir til að takast á við ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir.

Þá er fram undan innleiðing á Evróputilskipun sem hefur fengið nafnið Kóðinn og miðar að því að stuðla að útbreiðslu háhraðanets. Tilgangur tilskipunarinnar er að nýta ýmis samlegðartækifæri sem kunna að vera fyrir hendi til að gera uppbyggingu fjarskiptainnviða hagkvæmari.

„Það er búið að kynna fyrstu drögin að íslensku útgáfu frumvarpsins og ég held að það megi gera betur til að nýta það sem kemur frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til þess að ýta undir meiri samvinnu. Það má renna strokleðrinu yfir sumt í frumvarpsdrögunum og bæta öðru við í samræmi við Evrópulöggjöfina,“ segir Orri.

Sendafélagið gefist vel

Samkeppniseftirlitið veitti Vodafone og Nova undanþágu til að stofna sameiginlegt félag, Sendafélagið, utan um rekstur dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu árið 2015.

„Ég tel að það sé hægt að útfæra mögulegt samstarf með margvíslegum hætti. Við höfum góða reynslu af Sendafélaginu sem við rekum ásamt Vodafone. Þannig náðum við að gera meira fyrir minna, byggja upp gott kerfi en samtímis er mikil samkeppni á markaðnum,“ segir Margrét.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

„Ég sé ekki rökin gegn því að öll þrjú fyrirtækin geti tekið þátt í slíku samstarfi. Það sér hver maður að vöruframboð Vodafone og Nova er mjög ólíkt sem sýnir að það þrífst gríðarleg samkeppni þó að fyrirtæki sameinist um dauða innviði,“ segir Heiðar.

„Það sér hver maður að vöruframboð Vodafone og Nova er mjög ólíkt sem sýnir að það þrífst gríðarleg samkeppni þó að fyrirtæki sameinist um dauða innviði.“

„Við viljum viðhalda samkeppninni og það er ljóst að fyrirtækin eru með mismunandi markaðsnálgun og mismunandi vöruframboð. Stór hluti af kerfinu eru dauðir innviðir og þá er ég að tala um rafmagnið, sendaturnana og innviðina í kringum þá. Samkeppnin felst hins vegar í hvernig sendarnir sem eru á turnunum virka. Þeir eru grundvöllurinn á bak við vöruframboð og vöruþróun fyrirtækjanna og þess vegna er algjörlega óþarft að vera með tvöfalt eða jafnvel margfalt grunnkerfi,“ bætir hann við.

Í ákvörðun sinni um Sendafélagið tók Samkeppniseftirlitið undir það að samstarf gæti stuðlað að aukinni skilvirkni, öryggi, hagræði og auknum gæðum fyrir starfsemi fyrirtækjanna sem geti skilað sér til flestra ef ekki allra viðskiptavina félaganna á markaði fyrir farsímaþjónustu.

Hins vegar taldi stofnunin ljóst að samstarfið gæti skapað samráðsvettvang eigenda sem eru keppinautar og var samstarfinu því sett ströng skilyrði, til dæmis um jafnræði við heildsölu og óhæði stjórnarmanna.

Skilyrði velta á umfanginu

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að samstarf geti komið til álita en á fyrirtækjunum hvíli sönnunarbyrði fyrir því að að samstarf uppfylli þau skilyrði sem gilda á EES-svæðinu. Kjarni þeirra skilyrða er meðal annars að tryggt sé að samstarfið skili ábata til samfélagsins og neytenda.

Sérðu fyrir þér að niðurstaðan verði fyrirkomulag í líkingu við Sendafélagið og að Samkeppniseftirlitið muni setja samstarfinu álíka skilyrði?

„Það veltur á því hversu víðtækt samstarf þau eru að hugsa sér. Í því tilviki – og rétt er að taka fram að þar var að ræða tvo tiltekna keppinauta þar sem stór keppinautur stóð utan samstarfsins – þá tókst með þeim samstarf sem Samkeppniseftirlitið heimilaði með skilyrðum,“ segir Páll Gunnar.

„Annað dæmi er að Samkeppniseftirlitið hefur heimilað Mílu og Gagnaveitu Reykjavíkur að nýta framkvæmdir hvort annars þannig að ekki þurfi að grafa fleiri en einn skurð fyrir lagningu ljósleiðara. Það þarf hins vegar alltaf að gaumgæfa samstarf keppinauta vel, því tjón af samkeppnishamlandi samstarfi getur verið verulegt.“

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Víða dæmi um samstarf

Spurður um erlendar fyrirmyndir segir Orri að hægt sé að líta til Norðurlandanna þar sem samvinna fjarskiptafélaga hefur heppnast vel og samkeppni blómstrað. Hann nefnir sænsku félögin Telia og Tele2 sem hafa unnið að innviðauppbyggingu fyrir farsímaþjónustu og gagnaveitufyrirtækið Stokab sem er í eigu Stokkhólmsborgar og hefur selt aðganga að svörtum ljósleiðara til að koma í veg fyrir offjárfestingu.

„Við hljótum að geta lært eitthvað af stærri þjóðum um það sem er þjóðhagslega hagkvæmt en raskar jafnframt ekki samkeppni.“

„Sama er uppi á teningnum í Bretlandi þar sem Vodafone og Tele­fon­ica/O2 hafa unnið saman við uppbyggingu og rekstur á farsímanetum síðan 2012. Einnig hljótum við að líta til fordæma erlendra stofnana þar sem fjallað hefur verið um ákveðna samnýtingu farskiptafyrirtækja með jákvæðum hætti. Við hljótum að geta lært eitthvað af stærri þjóðum um það sem er þjóðhagslega hagkvæmt en raskar jafnframt ekki samkeppni,“ segir Orri.

Erlendir innviðasjóðir sýna Mílu áhuga

Um nokkurt skeið hafa verið uppi hugmyndir um að Síminn fjármagni sig á grunni dótturfélagsins Mílu, sem heldur utan um ýmsa innviði Símans, til að greiða niður óhagstæðari skuldir samstæðunnar.

Á síðasta uppgjörsfundi kom fram í máli Orra að hann „vildi örugglega gera einhverjar breytingar á fjármögnun [Símans] á næstu mánuðum“. Að sama skapi benti Orri á að félagið vildi áður sjá hvernig ýmislegt í umhverfi þess, meðal annars tengt eignarhaldinu, komandi hluthafafundi og eins umræðu um hvernig eigi að samnýta innviði, „spilast út“. Það hefði áhrif á hvernig Síminn vildi koma á sem hagkvæmastri fjármagnsskipan.

Þá hefur verið til skoðunar hvaða tækifæri felist í sölu Mílu úr Símanum, það er að meira fáist fyrir Símann með því að skipta honum upp. Erlendir framtakssjóðir, sem sérhæfa sig í fjárfestingum í fjarskiptainnviðum, hafa sýnt Mílu áhuga á undanförnum mánuðum. Slíkir sjóðir hafa komið að kaupum á fjarskiptainnviðum í Evrópu á mjög háum hagnaðarmargfeldum – 15 til 20 sinnum EBITDA – en miðað við það væri hægt að áætla að virði Mílu sé um 50 milljarðar, svipað og markaðsvirði Símans í dag.

Greinandi Capacent vék að mögulegri sölu á Mílu í síðasta verðmati frá því í desember.

„Fáum kaupendum er til að dreifa nema lífeyrissjóðunum, sem gerir samningsaðstöðu lakari. Sala á Mílu úr Símanum er líkleg til vekja upp óróleika á þingi, sérstaklega ef væntir kaupendur yrðu erlendir. Mikið og þungt regluverk er um rekstur Mílu og hætta á að fjárfestar sem ætla að selja Mílu lendi í sama vanda og ríkið með bankana,“ sagði í verðmatinu. Þá spyr greinandinn hvað yrði um framtíðarrekstur og virði Símans ef Míla yrði seld.

„Vissulega er gerlegt að skipta Símanum upp og mikil verðmæti gætu verið falin í Mílu. Að sama skapi er áhættan nokkur og gæti valdið usla ef kaupendurnir yrðu aðrir en lífeyrissjóðirnir.“

Athugasemdir