Origo og Metall hafa gengið til sam­starfs sem snýr að hönnun á út­liti og virkni á staf­rænum lausnum.

„Þetta er spennandi sam­starf við Origo ég hef trú á því að þetta muni gagnast báðum aðilum vel. Það er á­huga­vert fyrir okkur að vinna með Origo því þar er svo öflugt og fjöl­breytt lausna­fram­boð sem reynir á ó­líka styrk­leika í hönnun og út­færslu, " segir Alli Metall, stofnandi og eig­andi stofunnar Metall, í tilkynningu.

Sylvía Kristín Ólafs­dóttir fram­kvæmda­stjóri Við­skipta­þróunar og Markaðs­sviðs Origo, segir að góð hönnun og upp­lifun við­skipta­vina á vörunum þeirra skipti öllu máli.

„Það er frá­bær liðs­auki fyrir okkur að fá hönnuði frá Metal í þetta öfluga sam­starf. Við erum strax farin að sjá árangur af vinnunni í hug­búnaðar­þróun hjá okkur og fjöl­breytt reynsla frá Metall skilar sér vel inn í lausna­fram­boð hjá Origo," segir Sylvía Kristín í til­kynningu.

Alli segir að það hafi margt breyst frá því að hann stofnaði Metall árið 2011.

„Fyrstu árin vorum við mikið í hönnun á plötu um­slögum fyrir hljóm­sveitir, meðal annars, Mugi­son, Valdimar og Jóel Páls­son svo ein­hverjir séu nefndir. Við höfum síðan ein­blínt meira á staf­ræna hönnun á vefum og öppum, bæði fyrir litla sem stóra við­skipta­vini á Ís­landi, allt frá flug­fé­lagi og mat­vöru­keðju yfir í leikja og startup fyrir­tæki. Það er nóg að gerast í þessum geira og breiður hópur við­skipta­vina sem leitar til okkar,“ segir Alli.

Metall er í góðu sam­starfi með stofunni Funsize í Austin í Texas sem er með al­þjóð­lega við­skipta­vini á borð við Wholef­oods, Dell og Vol­vo.