Origo og Metall hafa gengið til samstarfs sem snýr að hönnun á útliti og virkni á stafrænum lausnum.
„Þetta er spennandi samstarf við Origo ég hef trú á því að þetta muni gagnast báðum aðilum vel. Það er áhugavert fyrir okkur að vinna með Origo því þar er svo öflugt og fjölbreytt lausnaframboð sem reynir á ólíka styrkleika í hönnun og útfærslu, " segir Alli Metall, stofnandi og eigandi stofunnar Metall, í tilkynningu.
Sylvía Kristín Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og Markaðssviðs Origo, segir að góð hönnun og upplifun viðskiptavina á vörunum þeirra skipti öllu máli.
„Það er frábær liðsauki fyrir okkur að fá hönnuði frá Metal í þetta öfluga samstarf. Við erum strax farin að sjá árangur af vinnunni í hugbúnaðarþróun hjá okkur og fjölbreytt reynsla frá Metall skilar sér vel inn í lausnaframboð hjá Origo," segir Sylvía Kristín í tilkynningu.
Alli segir að það hafi margt breyst frá því að hann stofnaði Metall árið 2011.
„Fyrstu árin vorum við mikið í hönnun á plötu umslögum fyrir hljómsveitir, meðal annars, Mugison, Valdimar og Jóel Pálsson svo einhverjir séu nefndir. Við höfum síðan einblínt meira á stafræna hönnun á vefum og öppum, bæði fyrir litla sem stóra viðskiptavini á Íslandi, allt frá flugfélagi og matvörukeðju yfir í leikja og startup fyrirtæki. Það er nóg að gerast í þessum geira og breiður hópur viðskiptavina sem leitar til okkar,“ segir Alli.
Metall er í góðu samstarfi með stofunni Funsize í Austin í Texas sem er með alþjóðlega viðskiptavini á borð við Wholefoods, Dell og Volvo.