Framleiðsla álvers Rio Tinto í Straumsvík á síðasta ári nam í heild um 183 þúsund tonnum. Framleiðslan var stöðug milli ára og lækkaði um 1.000 tonn frá árinu 2019, en þetta kom fram í framleiðsluuppgjöri Rio Tinto vegna síðasta ársfjórðungs ársins 2020. Framleiðslan í Straumsvík svaraði til tæplega 5,8 prósenta af álframleiðslu Rio Tinto á heimsvísu, en í heild framleiddi fyrirtækið um 3,18 milljónir tonna af áli á síðasta ári.

„Stefnumótun vegna framtíðar álversins í Straumsvík sem hófst í febrúar 2020 er yfirstandandi. Í júlí 2020 var send inn kæra til Samkeppniseftirlitsins þar sem því er haldið fram að Landsvirkjun misnoti markaðsráðandi stöðu sína sem raforkuseljandi. Samningaviðræður við Landsvirkjun, sem ætlað er að efla samkeppnishæfni álversins, eru enn í gangi,“ segir í framleiðsluuppgjörinu.

Rio Tinto tilkynnti í ársbyrjun 2020 að dregið yrði úr raforkukaupum á árinu 2020. Framleiðsla ársins 2020 er í samræmi við áætlanir, en á árinu 2019 var framleiðsla undir markmiði vegna þess að slökkva þurfti á einum kerskála af þremur á sumarmánuðum eftir myndun ljósboga. Ljósbogar geta myndast þegar verið er að skipta um rafskaut kerja sem geyma bráðið súrál og rafspenna sem vanalega er dreifð á öll kerin verður milli rafmagnsleiðara og aðeins eins kers. Þá myndast rafgas sem er tugþúsunda gráðu heitt og allt í nánasta umhverfi þess bráðnar og sviðnar í einu vetfangi. 

Framleiðslan í Straumsvík hefur verið undir afköstum síðan við ljósboginn myndaðist sumarið 2019, en á fullum afköstum getur álverið framleitt 220 þúsund tonn á ári. Á árinu 2018 var framleiðslan um 212 þúsund tonn.

Lægri afköst álversins í Straumsvík hafa eðli máls samkvæmt dregið úr tekjum bæði Landsvirkjunar og Landsnets. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði snemma árs 2020 að framleiðslusamdráttur Straumsvíkur myndi kosta Landsvirkjun um 2,5 milljarða króna. Miðað við að flutningskostnaður Landsnets er um sex dollarar á megavattstund er tekjutap vegna minni flutnings jafnframt um 500 milljónir króna. 

Fram kemur í áðurnefndu framleiðsluuppgjöri Rio Tinto að meðalsöluverð hafi verið tæplega 2.000 dollarar á tonnið, en félagið áframvinnur hreint ál í álbolta og aðrar vörur sem seljast á hærra verði. Minni framleiðsla en ella í Straumsvík frá því síðsumars 2019 og út allt síðasta ár hefur því kostað um 14 milljarða í útflutningstekjur, sem er litlu minna en ein loðnuvertíð.