Alfa Framtak vinnur að því að safna í nýjan framtakssjóð. Samkvæmt heimildum Markaðarins er stefnt að því að hann verði 10 til 15 milljarðar að stærð. Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri atNorth, mun taka sæti í stjórn sjóðsins.

Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, staðfestir í samtali við Markaðinn að unnið sé að söfnun í nýjan sjóð og að sá sjóður muni bera heitið Umbreyting II. „Við ætlum okkur að halda áfram á þeirri traustu vegferð sem við höfum verið á. Megintilgangur starfseminnar er að gera góð fyrirtæki betri og styðja öflugt fólk við uppbyggingu íslensks atvinnulífs.“ Horft sé til þess að sjóðurinn fjárfesti í fimm til átta fyrirtækjum, yfirleitt sem meirihlutaeigandi.

Fyrri sjóður Alfa Framtaks hefur fjárfest í Nox Health, Borgarplasti, Gröfu og Grjóti, Greiðslumiðlun Íslands, Málmsteypu Þorgríms Jónssonar og Nordic Visitor. Fjárfestingar voru frá hálfum milljarði króna til tæplega tveggja milljarða króna. Fjárfestingatímabili Umbreytingar I lýkur í ár en enn á eftir að ráðstafa um 10 prósentum af sjóðnum. Gunnar Páll segir að mögulega verði fjárfest í einu fyrirtæki til viðbótar eða fjármagnið nýtt til að styðja við rekstur fyrirtækja í eignasafninu.

„Eignasafnið er fjölbreytt sem skapar góða áhættudreifingu. Við höfum átt fyrirtækin í tæplega tvö ár hvert og ráðist í umfangsmiklar breytingar á rekstrinum. Þær hafa gengið vel og var heimsfaraldurinn ágætis þolraun fyrir okkar fyrirtæki. Þau sýndu mikinn viðnámsþrótt og verður spennandi að vinna áfram að virðisaukandi aðgerðum með stjórnendum og starfsmönnum þeirra,“ segir Gunnar Páll.

Í síðustu viku var tilkynnt að Markús Hörður Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá TM, hefði ráðið sig í stöðu fjárfestingastjóra hjá Alfa Framtaki. Markús mun ganga í eigendahóp fyrirtækisins.