Framtakssjóðurinn Alfa Framtak fjármagnar kaup Nordic Visitor á Iceland Travel af Icelandair. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram á heimasíðu Arctica Finance. Tilkynnt var um söluna á fyrirtækinu á föstudaginn.

Alfa Framtak rekur sjö milljarða framtakssjóð sem leggur áherslu á umbreytingarverkefni. Sjóðurinn hefur meðal annars fjárfest í Nox Health, Borgarplasti og Greiðslumiðlun Íslands.

Í samningnum er heildarvirði (e. enterprise value) Iceland Travel metið á 1,4 milljarða króna en þar af eru 350 milljónir króna háðar frammistöðutengdum mælikvörðum út árið 2023.

Ásberg Jónsson, forstjóri Nordic Visitor, á 70 prósent hlut í fyrirtækinu, samkvæmt upplýsingum frá Fyrirtækjaskrá.

Nordic Visitor velti rúmlega fjórum milljörðum króna árið 2019. Iceland Travel samstæðan velti 61,8 milljónum evra sama ár eða jafnvirði 9,1 milljarðs króna.

Arctica Finance var ráðgjafi Nordic Visitor við kaupin og Íslandsbanki ráðgjafi Icelandair.