Alexander Jensen Hjálmarsson, sem hefur síðustu fjögur ár starfað sem sjóðsstjóri hjá GAMMA Capital Management, hefur gengið til liðs við Stoðir, eitt stærsta fjárfestingafélag landsins. Tók hann til starfa í síðasta mánuði.

Alexander hefur auk þess starfað í eignastýringu hjá Sjóvá og þá er hann jafnframt fyrrverandi formaður Ungra fjárfesta. Hann hefur einnig sinnt kennslu við viðskiptafræðideildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík undanfarin ár.

Stoðir hafa á undanförnum vikum fjárfest í Símanum og Arion banka fyrir um níu milljarða króna og þá er félagið einnig orðið stærsti hluthafi TM með um tíu prósenta hlut. Í kjölfar forgangsréttarútboðs til hluthafa fjárfestingafélagsins, sem lauk í síðustu viku, nemur eigið fé Stoða um 22 milljörðum króna.