Á árinu 2020 barst Vinnumálastofnun 141 tilkynning um hópuppsagnir, þar sem 8.789 manns var sagt upp störfum. Þetta er mesti fjöldi hópuppsagna sem tilkynntur hefur verið til Vinnumálastofnunar á einu ári. Þetta kemur fram í nýrri frétt á vef stofnunarinnar.

Kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á efnahagslífið í landinu en flestar hópuppsagnir á árinu náðu til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þar af var yfir þúsund starfsmönnum Icelandair sagt upp störfum.

Almennt atvinnuleysi var 10,6% í nóvember og jókst töluvert á milli mánaða. Atvinnuleysið var 9,9% í október, 9,0% í september og 8,5% í ágúst. En samkvæmt spám Vinnumálastofnunar var búist við að atvinnuleysi yrði komið upp í 11-12% um áramótin. Atvinnuleysi eftir bankahrunið árið 2008 mældist mest 9,3 prósent í febrúar og mars 2009.

Þrjár tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í desember 2020 þar sem 137 starfsmönnum var sagt upp störfum, 94 í menningar, íþrótta og tómstundastarfsemi, 32 í iðnaði og 11 í flutningastarfsemi. Þær níutíu uppsagnir í menningar, íþrótta og tómstundastarfsemi tengjast allar uppsögnum í líkamsræktarstöðinni World Class. Uppsagnirnar koma allar til framkvæmda í apríl 2021.