Ís­lenska út­gáfu­fyrir­tækið Alda Music hefur verið keypt af Uni­ver­sal Music/InGrooves, stærsta tón­listar­fyrir­tækis heims. Uni­ver­sal Music/InGrooves segir kaupin til marks um mikil­vægi ís­lenskrar tón­listar á al­þjóða­vísu og hyggst sam­steypan fjár­festa í aukinni út­gáfu ís­lenskra lista­manna, bæði innan­lands og utan. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Öldu Music.

Alda er rétt­hafi að bróður­parti allrar ís­lenskrar tón­listar sem gefin hefur verið út. Með kaupunum er tón­listin þar með komin í er­lenda eigu. Ekki er tekið fram í til­kynningunni hvert kaup­verðið er.

Þar segir að dag­leg starf­semi Öldu Music verði ó­breytt og mun Sölvi Blön­dal á­fram stýra teymi starfs­fólks út­gáfunnar, auk þess að leiða sam­runa Öldu við Uni­ver­sal Music/InGrooves. Mark­miðið sé að efla út­gáfuna enn frekar og sækja fram með ís­lenska tón­listar­út­gáfu og kynningu á nýrri tón­list, hér á landi sem er­lendis.

Alda Music var stofnuð árið 2016 af tón­listar­mönnunum Sölva Blön­dal og Ólafi Arnalds á­samt fleirum. Á þessum sex árum sem liðin eru, hefur fyrir­tækinu vaxið fiskur um hrygg og er í dag með afar um­fangs­mikla starf­semi í út­gáfu og dreifingu. Fyrir­tækið hefur stóran og fjöl­breyttan hóp kunnra lista­manna á samningi hjá sér og hefur einnig lagt á­herslu á að koma auga á og vinna með nýju og upp­rennandi tón­listar­fólki.

Mikið tækifæri

Sölvi Blön­dal, fram­kvæmda­stjóri Öldu Music, lýsir þessu sem miklu tæki­færi.

„Þetta er mikið tæki­færi sem við erum að fá, að vinna með öflugasta tón­listar­fyrir­tæki heims. Ís­lensk tón­list hefur sjaldan átt fleiri og stærri far­vegi til heimsins en ég get ekki hugsað mér betri sam­starfs­aðila en Uni­ver­sal Music/InGrooves í því verk­efni að koma henni enn betur á fram­færi. Við munum engu að síður halda á­fram að gera okkar til að styðja við gras­rótina, sem er og verður undir­staða ný­sköpunar í ís­lenskri tón­list. Sam­tímis aukast mögu­leikar okkar til að markaðs­setja bæði nýja og eldri tón­list til muna með að­komu Uni­ver­sal – þau eru al­gjör­lega leiðandi markaðs- og út­gáfu­fyrir­tæki á sviði tón­listar í heiminum í dag.“

Frank Brieg­mann, stjórnar­for­maður og for­stjóri Uni­ver­sal Music Central Europe & Deutsche Grammop­hon, býður Öldu Music hjartan­lega vel­komna í nor­rænu fjöl­skylduna hjá Uni­ver­sal Music.

„Alda var að okkar mati rétti sam­starfs­aðilinn fyrir Ingrooves á Ís­landi. Kaupin veita okkur tæki­færi til að að­stoða ís­lenska lista­menn og opna þeim að­gang að mikilli tækni­þekkingu sem byggst hefur upp hjá Uni­ver­sal og Ingrooves. Þekking á sviði dreifingar og markaðs­setningar getur gert gæfu­muninn við að ná til nýrra á­heyr­enda og okkar inn­koma verður vonandi lyfti­stöng fyrir allt það fólk sem starfar við tón­listar­sköpun á Ís­landi. Sölvi og hans sam­starfs­fólk hafa byggt upp far­sælt út­gáfu­fyrir­tæki, Öldu, sem er með afar stóran hóp lista­manna innan sinna vé­banda og þessi kaup stað­festa þá ó­mældu trú sem við höfum á fram­tíð ís­lensku tón­listar­senunnar og mögu­leikum hennar til að láta enn frekar til sín taka á al­þjóð­legum markaði.“

Þá segir Bob Roback, for­stjóri Ingrooves dreifingar­fyrir­tækisins (í eigu Uni­ver­sal Music Group), að Ís­land hafi alltaf gegnt veiga­miklu hlut­verki í al­þjóð­legu tón­listar­senunni.

„Á að­eins nokkrum árum hafa Sölvi og sam­starfs­fólk hans hjá Öldu Music byggt upp lang­öflugasta út­gáfu- og dreifingar­fyrir­tæki landsins sem er með magnað úr­val tón­listar­fólks á sínum snærum. Við hlökkum til að vinna náið með þessum lista­mönnum og styðja um leið enn betur við gras­rótar­senuna í tón­list á Ís­landi. Við viljum eiga þátt í að skapa enn frekari tæki­færi fyrir þetta tón­listar­fólk, bæði innan Ís­lands og utan.“