Samkeppniseftirlitið, SKE, tilkynnti í lok dags á þriðjudag að kaup franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian á Mílu muni ekki fara í gegn án skilyrða. Í frummati eftirlitsins kemur fram að kaupin muni hindra virka samkeppni, sem kom mörgum á óvart því þarna er verið að rjúfa eignatengsl í virðiskeðjunni. Innviðir og þjónusta verði ekki lengur á sömu hendi, en sameiginlegt eignarhald á báðum þessum þáttum hefur Samkeppniseftirlitið sjálft gagnrýnt.

Viðbúið var að Samkeppniseftirlitið myndi koma með einhverjar athugasemdir við kaupin, að sögn viðmælenda Markaðarins. Samkeppniseftirlitið leitist oft og tíðum við að setja mark sitt á samkeppnismarkaði, að þeirra sögn.Kaup Ardian á Mílu vöktu mikla athygli á síðasta ári en um er að ræða stærstu fjárfestingu síðari ára hér á landi. Viðskiptin voru valin viðskipti ársins að mati fjölskipaðrar dómnefndar Markaðarins og sagði Orri Hauksson, forstjóri Símans, í viðtali í áramótablaðinu að viðskiptin hefðu mikla þýðingu fyrir Ísland. Virði viðskiptanna er 78 milljarðar króna og söluhagnaður Símans er áætlaður 46 milljarðar.

Í ljósi þessa neikvæða frummats Samkeppniseftirlitsins sem nú liggur fyrir, eru alla jafna tveir kostir í boði fyrir samrunaaðila að sögn lögfræðings sem Markaðurinn ræddi við. Annars vegar geta samningsaðilar mótmælt frummatinu og freistað þess að snúa því við og hins vegar, sá kostur sem talinn er líklegri, geta þeir óskað eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið um möguleg skilyrði sem hægt er að setja samrunanum og séu til þess fallin að eyða þeim samkeppnislegu vandamálum sem SKE telur að myndu leiða af samrunanum.

Skemmst er að minnast þess að þegar N1 keypti Festi og Hagar keyptu Olís var sáttaviðræðnaleiðin farin. Þær sáttaviðræður enduðu með því að N1 og Hagar urðu að selja frá sér tilteknar bensínstöðvar og matvöruverslanir.Einn viðmælandi Markaðarins sem hefur reynslu af fjarskiptamarkaði segir ákvörðun SKE í máli Mílu afar sérstaka og til þess fallna að fæla erlenda fjárfesta frá landinu.Þessi ákvörðun skjóti í raun skökku við þar sem kaupunum sé ætlað að brjóta upp lóðrétta samstæðu. Hann segir að hér sé dæmi um opinbera stofnun sem virðist vera að verja aðra opinbera starfsemi. Það beri ekki á öðru, að hans mati, en að Samkeppniseftirlitið óttist að Ljósleiðarinn, sem er opinbert fyrirtæki, muni eiga í höggi við erfiðari keppinaut en fyrr og að samkeppni við það fyrirtæki verði beinskeyttari hér eftir.

Viðmælendur sem Markaðurinn ræddi við telja að það sé ámælisvert að þessi ákvörðun ókjörinna fulltrúa gangi í berhögg við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um að laða erlenda fjárfestingu til landsins, sem þegar er lítil í alþjóðlegum samanburði.

Efast má um að þessir erlendu fjárfestar hafi lent í jafn löngu og erfiðu ferli í mun stærri löndum og miklu stærri fjárfestingum. Yfirleitt reyna fagfjárfestar eins og Ardian, sem eru meðal stærstu sjóðastýringarfyrirtækja Evrópu, allt sem í þeirra valdi stendur til þess að haga viðskiptasamningum þannig að þeir hljóti blessun yfirvalda í þeim löndum þar sem þeir fjárfesta.Ef svo fer að kaupin á Mílu gangi ekki í gegn leiðir það til slæmra afleiðinga fyrir land og þjóð, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Ef kaupin ganga ekki í gegn verður Síminn áfram eigandi Mílu en Síminn er búinn að marka sér þá stefnu að verða ekki lengur eigandi Mílu, að lokinni stefnumótun árið 2021. Síminn gæti horfið frá þeirri stefnu, eða haldið sig við hana og hafið leit að nýjum kaupendum, sem þá væru væntanlega íslenskir. Berast þá böndin helst að lífeyrissjóðum, sem þegar eru fyrirferðarmestu fjárfestarnir á Íslandi.

„Afleiðingarnar yrðu hins vegar afdrifaríkari fyrir landið í heild. Þótt búast megi við að viðskipti muni klárast að lokum, er kerfið að gera erlendum fjárfestum erfitt fyrir. Erlend fjárfesting á Íslandi er lítil og íslenskt stofnanakerfi er í raun að gera umhverfið erfiðara fyrir þessa erlendu aðila, þvert ofan í það sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar segjast ítrekað stefna að,“ segir einn viðmælenda Markaðarins.

Sett hafi verið lög vegna sölu Mílu, félagið hafi gert sérstakan samning við ríkið, Fjarskiptastofa hafi gert miklar athugasemdir við kaupin og nú sé Samkeppniseftirlitið að flækja málið á síðustu metrunum.

„Vegna stærðar sinnar og orðspors er Ardian allra síst sá evrópski sjóður sem Ísland vill að lendi í vondri reynslu og hrakningum hér á landi.“