Fram hefur komið í fréttum að Landsvirkjun hafni öllum beiðnum um frekari raforkukaup aðila sem stunda rafmyntavinnslu, en eftirspurn eftir raforku til slíkrar vinnslu hefur margfaldast eftir að Kína ákvað að banna gröft eftir rafmyntum á netinu. Nam eftirspurnin um 1.000 MW sem er tífalt það magn sem gagnaverin nýta í dag. Ástæða þess að Landsvirkjun hafnar öllum slíkum beiðnum er að um þessar mundir er raforkukerfið full lestað.

Markaðurinn leitaði til Tinnu Traustadóttur, framkvæmdastjóra Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun, vegna málsins og spurði hvort ekki væri hætta á þessi ákvörðun Landsvirkjunar yrði til þess að rafmyntavinnsla leitaði í umhverfi þar sem rafmagn er framleitt með síður umhverfisvænum hætti en hér á landi.

Að hennar sögn má ætla að á heimsvísu fari rafmyntavinnsla fram með endurnýjanlegri orku að hluta en nákvæmar upplýsingar liggi ekki fyrir varðandi þá orkugjafa sem eru notaðir vegna starfseminnar erlendis. Í Kína fari stór hluti raforkuvinnslu fram með kolum og því sé ekki ólíklegt að hlutfall endurnýjanlegrar orku sem notuð er í rafmyntavinnslu aukist nú eftir að starfsemin hefur verið bönnuð í Kína og leitar á önnur mið.

Hvaða áhrif mun það hafa á gagnaversiðnað á Íslandi ef ekki verður hægt að bjóða upp á námugröft innan tíðar? Gætu umsvif þeirra minnkað umtalsvert?

„Gagnaver eru mjög eftirsóttir viðskiptavinir og er gagnaversiðnaðurinn á Íslandi alltaf að styrkjast. Enda er gagnaversiðnaður á heimsvísu í hröðum vexti og búist við að hann haldi áfram í veldisvexti. Um áratugur er síðan fyrstu gagnaverin hófu starfsemi hér á landi og bættust í hóp stórnotenda raforku. Þau eru nú fjögur talsins og á bilinu 1-4 prósent árlegrar raforkusölu Landsvirkjunar sem fer í starfsemina, en eftirspurnin getur sveiflast á milli ára.“

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkun.
Fréttablaðið/Anton Brink

Tinna segir viðskiptavini gagnavera hér á landi starfa á fjölbreyttum sviðum, svo sem í fjármálatækni, fjarskiptum, heilbrigðistækni og bílaiðnaði. Fyrirtækin sækist eftir reikniafli ofurtölva sem geri þeim kleift að leysa verkefni af áður óþekktri stærðargráðu. Dæmi um verkefni sem gagnaverin vinna að séu hermanir á áhrifum lyfja á líkamann, loftslagsrannsóknir, árekstraprófanir og flóknir fjármálaútreikningar. Þessi starfsemi sé eftirsóknarverð þar sem hún skapi mikil verðmæti og því hafi nágrannaþjóðir okkar nýtt sér tækifæri á þessu sviði.

Tinna segir gagnaver á Íslandi er einnig stunda vinnslu í tengslum við bálkakeðjur og að vöxtur í gagnaversiðnaði hér á landi hafi að hluta verið drifinn áfram af uppgangi rafmynta í heiminum. „Rafmyntavinnsla krefst mikillar raforku og tölvubúnaðar sem er með tiltölulegan skamman líftíma. Búnaðurinn úreldist á nokkrum árum og því þörf á reglulegum fjárfestingum til að viðhalda starfseminni. Þessar tíðu fjárfestingar gera það að verkum að reglulega gefst viðskiptavinum tækifæri til að endurskoða staðsetningu með tilliti til hagstæðustu raforkusamninga hverju sinni. Viðskiptavinir gagnaveranna eru margir afar kvikir og samkeppnin um þá hörð.“

Gagnaversiðnaður hér á landi er að sögn Tinnu grænn og loftslagsvænn framtíðariðnaður og tækifærin fyrir Ísland á þessu sviði séu margvísleg.

En fer Landsvirkjun á mis við miklar tekjur af því að stöðva nú sölu á rafmagni til námuvinnslu og svo aftur mögulega eftir nokkur ár?

„Raforkukerfið er fullselt nú þegar og er Landsvirkjun því ekki að fara á mis við tekjur. Starfsemi gagnaveranna á Íslandi er blönduð og hafa rafmyntir hjálpað í uppbyggingarfasanum. Þannig hefur rafmyntavinnsla gert gagnaverunum kleift að ná 10 MW múrnum sem þarf í flutningssamningum við Landsnet. Eins hefur þessi starfsemi hjálpað gagnaverunum að greiða niður sínar fjárfestingar. Mikil eftirspurn er eftir reikniafli ofurtölva sem alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir nýta sér en vöxturinn er hægari þar. Þannig styðja rafmyntir við reksturinn á meðan viðskiptavinagrunnurinn er styrktur. Gagnaversiðnaður skapar nú þegar mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið í formi gjaldeyristekna, kaupa á raforku, starfa, þekkingar og annarra afleiddra jákvæðra áhrifa á hagkerfið,“ segir Tinna.

Þýðir þetta að rafmagnið sé uppselt hjá Landsvirkjun og það þurfi að virkja til að sinna eftirspurn eftir einhvern tíma ef uppgangur gagnavera heldur áfram sem og orkuskipti bílaflotans og fleira?

„Þegar rætt er um stöðu orkukerfisins er gott að hafa í huga að umræðan undanfarnar vikur hefur að stórum hluta snúist um stöðuna nú í vetur en vegna lágrar miðlunarstöðu á Þjórsársvæði hefur verið dregið úr framboði skerðanlegrar raforku og skammtímasamninga. Næsta vor, þegar rennsli í ám eykst og staða miðlana hækkar á ný, mun framboð til skemmri tíma aukast. Vorkoman mun þó engu breyta um stöðu orkumála til lengri tíma,“ segir Tinna Traustadóttir.

Þegar horft er til næstu ára stendur kerfi Landsvirkjunar ekki undir auknu álagi. Að sögn Tinnu getur orkukerfið ekki mætt núverandi og nýjum þörfum nema það verði byggt upp. Í þessu samhengi sé mikilvægt að hafa í huga að uppbygging raforkukerfa taki langan tíma. Bygging vatnsafls og jarðvarmavirkjana taki á bilinu 4-5 ár. Uppbygging vindorkugarða taki um helming þess tíma en sem stendur sé þróun vindorkuverkefna hér á landi skammt á veg komin, sérstaklega ef horft sé til leyfisveitingaferilsins.

Stígandi hefur verið í eftirspurn eftir raforku, bæði frá núverandi viðskiptavinum og nýjum aðilum. Eftirspurnin er þvert á iðngreinar þ.e. álver, kísilver og gagnaver. Viðskiptavinir fullnýta nú langtímasamninga sína og óska eftir meiri raforku. Að sögn Tinnu er ekki er útlit fyrir að eftirspurnin minnki og því ljóst að auka þarf framboð raforku með nýjum aflstöðvum. „Aukin uppbygging iðnaðar og orkuskipta á Íslandi byggja á tryggu orkuframboði. Tíminn til að taka ákvarðanir sem snerta orkumál á þessum áratug er núna,“ segir Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun.