Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist eindregið vera þeirrar skoðunar að hækka eigi núverandi þak á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna, sem mega að hámarki vera 50 prósent sem hlutfall af heildareignum þeirra, um leið og aðstæður í efnahagslífinu leyfa.

„Það yrði mjög jákvætt, fyrir lífeyrissjóðina og hagkerfið í heild sinni, ef sjóðirnir geta aukið hlutfall erlendra eigna í eignasafni sínu,“ segir hann í samtali við Markaðinn.

Í umfjöllun Markaðarins í gær kom fram í máli stjórnenda tveggja af stærstu lífeyrissjóðum landsins að tímabært væri að endurskoða lögbundið hámark á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða. Þakið sé orðið íþyngjandi fyrir lífeyrissjóðina sem hafa síaukna fjárfestingaþörf en takmarkað svigrúm til að ráðstafa fénu erlendis.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), sagði að helst ætti að endurskoða reglurnar með það fyrir augum að afnema þakið alveg. „Til að geta dreift áhættunni með sem skynsamlegustum hætti væri því best fyrir lífeyrissjóðina að vera ekki með sérstök höft á því hvar fjárfest er hverju sinni,“ sagði hún.

Ásgeir bendir á að í lögum sé nú litið á erlendar fjárfestingar sjóðanna sem áhættuþátt. „Ég tel hins vegar að þær gegni því hlutverki að stuðla að áhættudreifingu fyrir bæði einstaka sjóði sem og kerfið í heild. Þess vegna tel ég eðlilegt að lögbundið hámark á erlendar eignir sem hlutfall af heildareignum sjóðanna verði hækkað.“

Spurður hversu mikið hann vilji hækka þakið segist Ásgeir ekki geta svarað því á þessari stundu en bendir á að fjárfestingaþörf sjóðanna á erlendum mörkuðum sé mismunandi þeirra á milli.

„Þegar heimurinn verður aftur eðlilegur, þar sem ferðaþjónustan verður búin ná vopnum sínum og viðskiptaafgangur verður meiri, þá er alveg ljóst að lífeyrissjóðirnir verða að nýta sér það svigrúm sem þá skapast til að auka fjárfestingar sínar erlendis,“ útskýrir Ásgeir, og bætir við:

„Við skulum líka hafa það hugfast að viðskiptaafgangurinn stafar einnig að hluta til af því að almenningur er að fresta neyslu sinni í dag með því að ráðstafa sparnaði sínum til lífeyrissjóðanna.“

Ég tel að erlendar fjárfestingar gegni því hlutverki að stuðla að áhættudreifingu fyrir bæði einstaka sjóði sem og kerfið í heild

Aðspurður segir Ásgeir að það hafi ekki átt sér stað neitt formlegt samtal um slíkar breytingar milli lífeyrissjóðanna og Seðlabankans. „En ég hef lýst þessari skoðun minni við forsvarsmenn þeirra, meðal annars í fyrra þegar sjóðirnir samþykktu að gera tímabundið hlé á gjaldeyriskaupum til að tryggja stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.“

Nýjustu tölur fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, sem ná til loka september á síðasta ári, sýndu að hlutfall erlendra eigna væri komið yfir 40 prósent hjá þremur stærstu lífeyrissjóðunum. Hlutfall erlendra eigna hjá LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins með heildareignir upp á tæplega 1.100 milljarða króna, nam rúmlega 43 prósentum í lok september. Hlutfall Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, næststærsta sjóðsins, nam tæplega 43 prósentum og hjá Gildi var það komið upp í 40 prósent.

Heildareignir lífeyrissjóðanna í lok nóvember námu rúmlega 5.630 milljörðum króna en þar af voru erlendar eignir sjóðanna um 1.900 milljarðar. Lífeyrissjóðir hafa að jafnaði þurft að ráðstafa 300 milljörðum króna á ári í fjárfestingar og hefur sú tala hækkað frekar en hitt samhliða auknum uppgreiðslum á sjóðfélagalánum.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis, sagði í frétt Markaðarins í gær að hækka ætti leyfilegt hámark eignar lífeyrissjóða í erlendri mynt og nefndi að innan sjóðanna hefði verið nefnt að eðlilegt væri að hámarkið yrði hækkað í 60 prósent.

„Þó að hámarkið sé í dag 50 prósent er erfitt fyrir lífeyrissjóði að nýta það svigrúm til fulls án þess að eiga það á hættu að skammtímasveiflur á gengi krónunnar og verðþróun á mörkuðum ýti hlutfalli eigna í erlendri mynt upp fyrir lögbundið hámark,“ sagði hann.