Airbus-þota bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins Air Lease Corporation (ALC), er flogin af landi brott. TF-GPA tók á loft nú klukkan níu en hún hafði verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá því í lok mars þegar flugfélagið WOW air var tekið til gjaldþrotaskipta.

ALC hefur síðan þá staðið í stappi við Isavia sem krefst greiðslu heildarskulda WOW air gagnvart Isavia en ALC hefur staðið í þeirri trú að nóg sé að greiða skuldir er viðkoma þotunni sjálfri til þess að losa hana. Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði á miðvikudag að ALC væri heimilt að sækja far­þega­þotuna og greiddi sýslumaðurinn á Suðurlandi þá leið í gærmorgun.

Þannig er fyrri fasa málsins lokið af hálfu ALC, að því er Oddur Ástráðsson, lögmaður fyrirtækisins, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær. Nú taki sá seinni við en hann felur í sér að taka saman hvert umfang fjárhagslegs tjóns ALC sé af kyrrsetningunni. Hafa þeir jafnframt í hyggju að kanna réttarstöðu sína með tilliti til skaðabóta.

Oddur sagði ennfremur að búið hafi verið að á­kveða næsta verk­efni þotunnar við fall WOW air en sökum kyrr­setningarinnar og óvissunnar í kringum hana hafi verið undið ofan af þeim leigu­samningi. Það liggi ekki fyrir að svo stöddu hvert þotunni verður haldið í næsta verk­efni en það ætti ekki að reynast erfitt, vélar af þessi tagi séu eftir­sóttar mjög.

Vélin tók á loft klukkan níu og stefnir í suðaustur, í áttina að meginlandi Evrópu. Ekki liggur fyrir hvert næsta verkefni hennar verður.
Skjáskot/FlightRadar24
TF-GPA skömmu áður en hún tók á loft.
Mynd/Sigursteinn Sævarsson