Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ræddi stöðu lífeyrissjóðanna og áhrif þeirra á fjármálamarkaði á síðasta fundi, sem var haldinn um miðjan september. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem var birt í gær.

Í fundargerðinni segir að lífeyrissjóðirnir „séu ráðandi fjárfestar hér á landi og mikilvægt sé að breið sátt ríki um umgjörð þeirra“. Þá hafði nefndin áhyggjur af stöðu sjóðanna „í ljósi núverandi vaxtaumhverfis sem gæti aukið áhættu töku þeirra í leit að hærri ávöxtun“. Var ákveðið að halda áfram umfjöllun um sjóðina á næsta fundi.

Ríkisstjórnin mun sem kunnugt er hefja stefnumörkun í lífeyrismálum og stefnir að því að afraksturinn verði grænbók um lífeyrismál sem kynnt verði vorið 2021.

Nefndin ræddi aðgerðirnar sem Seðlabankinn og stjórnvöld hafa gripið til vegna farsóttarinnar og taldi að þær hefðu mildað höggið. Farsóttin væri hins vegar að dragast á langinn og óvissa um efnahagshorfur hefði aukist.

„Var það því mat nefndarinnar að horfur fyrir fjármálastöðugleika hefðu versnað frá síðasta fundi nefndarinnar og hefði hún því minni áhyggjur nú af neikvæðum áhrifum slakara aðhalds stjórntækja bankans,“ segir í fundargerðinni.

Mikið hefur verið um endurfjármögnun íbúðalána undanfarna mánuði, samfara lækkandi vaxtastigi. Nefndin segir vísbendingar um að endurfjármögnun hafi náð hámarki og ræddi almennt kosti og ókosti ólíkra lánsforma íbúða­lána. Nefndarmenn töldu jákvætt að heimilin nýttu sér þá valkosti sem í boði væru, en að mikilvægt væri að greiðslumöt væru þannig úr garði gerð að lántakendur hefðu borð fyrir báru til að bregðast við breyttum aðstæðum.

Þá kom fram að vísbendingar væru um að dregið hefði úr framboði á fasteignamarkaði en á móti „hefði framboð leiguhúsnæðis aukist sem ætti að draga úr eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði til kaups til lengri tíma litið“.