Áhrif hækkunar stýrivaxta og annarra stýritækja Seðlabankans á íbúðamarkaðinn gætu komið hratt inn að sögn Jón Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka. Þetta sagði hann í sjónvarpsviðtali í Markaðnum sem sýndur verður klukkan 19:00 á Hringbraut í kvöld.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun að bankinn myndi hækka stýrivexti um 0,5 prósentur og eru stýrivextir því nú 2 prósent.

„Áhrifin verða auðvitað margþætt fyrir íbúðamarkaðinn og það verður forvitnilegt að fylgjast með áhrifum þessarar hækkunar og þá sérstaklega í samspili við þessi þjóðhagsvarúðartæki þar sem var sett þak á greiðslubyrði á lánum sem hlutfall af ráðstöfunartekjum og einnig hámarkslánsfjárhlutfalls. Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig þetta allt mun spila saman,“ segir Jón Bjarki og bætir við að þessar aðgerðir hafi enn sem komið er ekki haft nein teljandi áhrif á íbúðamarkaðinn.

„Þetta hefur ekki haft nein áhrif enn, en það gæti gerst að áhrifin muni koma frekar hratt inn. Síðan má ekki gleyma þessum venjulegu leiðum peningastefnunnar en hún styður við gengið og leiðir til meiri sparnaðar og minni áherslu á fjárfestingar og neyslu í nútíð. Síðan getur hún haft áhrif á fjárfestingarákörðunum fyrirtækja og gerir fólk varari um sig og sín fjárútlán í nánustu framtíð.“