Hún segir vaxtahækkanir taka ákveðinn tíma að virka. „Í því sambandi er talað um 6-12 mánuði sem það taki hækkanir að koma í gegnum kerfið. Tiltölulega stutt er síðan vaxtahækkunarferli Seðlabankans hófst fyrir alvöru. Það var síðasta haust.

Kortaveltutölurnar sem við sáum í desember voru gríðarlega sterkar. Út frá því er erfitt að segja að vaxtahækkanir séu þegar farnar að bíta. Tölurnar fyrir janúar koma í næstu viku og þá verður betra að átta sig á hvort áhrif séu farin að koma fram. Það flækir þó málin að hertar sóttvarnir voru í gildi í janúar samhliða mikilli fjölgun smita og því ómögulegt að einangra vaxtaáhrifin.“

Erna segir Seðlabankann ekki hækka vexti til þess eins að hafa áhrif á húsnæðismarkaðinn heldur einnig til að hafa áhrif á neyslu og þenslu í hagkerfinu, og þar með verðbólgu.

Hún telur einnig að erfitt verði að meta hvað veldur ef fljótlega fer að slá á þenslu á íbúðamarkaði „Fyrir áramót setti Seðlabankinn strangari reglur um veðhlutföll og greiðslubyrði, sem tóku gildi í desember og reynslan því lítil, en reglurnar eru til þess fallnar að draga úr eftirspurn og verðþrýstingi á húsnæðismarkaði. Eru það þessar aðgerðir sem valda eða vaxtahækkanirnar? Eða eitthvert samspil?

Svo er líka mögulegt að verðhækkanirnar lendi hreinlega á vegg. Við sáum merki um þetta árið 2017. Þá urðu mjög miklar verðhækkanir á fyrri hluta ársins og svo var eins og þær gengju á vegg. Það eru takmörk fyrir því hve húsnæðisverð getur hækkað umfram laun og undirliggjandi þætti, á endanum komast nýir einstaklingar hreinlega ekki inn á markaðinn.“

Gengisstyrking á besta tíma fyrir Seðlabankann

Erna bendir á að vaxtahækkun Seðlabankans á miðvikudaginn hafi strax haft áhrif til styrkingar á gengi krónunnar. „Ég held að gengisstyrkingin gæti ekki komið á betri tíma fyrir Seðlabankann vegna þess að hún hefur áhrif til lækkunar á verði innflutnings og getur þannig dregið úr áhrifum erlendra verðhækkana hér á landi.

Spurningin er hins vegar hvað verður svo. Við sáum að árið 2017 varð krónan í raun allt of sterk á stuttum tíma. Hvað er Seðlabankinn tilbúinn til að hleypa mikilli styrkingu í gegn ef hún er ekki drifin af undirliggjandi hagstærðum? Nú hefur krónan styrkst mjög mikið, en það er ekki vegna þess að ferðaþjónustan sé komin á fullt skrið þannig að það virðist vera sem ekki séu það undirliggjandi hagstærðir sem liggja að baki.“

Aðspurð um hættuna á vaxtamunarviðskiptum, sem höfðu mikil áhrif í hruninu 2008, segir Erna seðlabankastjóra tala á þann veg að hann hafi ekki miklar áhyggjur af slíkum viðskiptum. Hann segi aðra seðlabanka vera að hefja vaxtahækkunarferli sem styðji við okkar vaxtastefnu.

„Seðlabankinn hefur líka mikið af þjóðhagsvarúðartækjum til að beita ef tilefni þykir til eins og fjárstreymistækið. Hann hefur tæki til að draga úr afleiðuviðskiptum á gjaldeyrismarkaði. Svo hefur hann auðvitað gjaldeyrisinngrip. Hann hefur því úrræði til að beita til að sveiflur krónunnar trufli ekki endilega vaxtastefnuna.

Í fyrra birti Seðlabankinn mat sitt á jafnvægisraunvöxtum. Við erum með 2,5 prósent verðbólgumarkmið og sé hagkerfið í fullri afkastagetu og verðbólgan í markmiði gætum við verið að horfa á 3,5-4 prósent stýrivexti sem jafnvægisvexti.

Miðað við verðbólguhorfur nú finnst mér líklegt Seðlabankinn sjái sig knúinn til að fara með vexti þangað, jafnvel hærra. Þá er bara spurning hversu langan tíma Seðlabankinn vill taka í vaxtahækkunarferlið.“

Fleiri en Seðlabankinn verða að koma að lausn

Nú erum við að sigla út úr Covid, að því er virðist. Við höfum ekki mannskap til að manna ferðaþjónustuna og verðum að gera eins og áður, flytja inn fólk til þess. Hvað gerist ef hingað koma 10 þúsund erlendir starfsmenn á stuttum tíma til starfa í ferðaþjónustunni?

„Þá væru einmitt komnir hingað inn undirliggjandi grunnkraftar á húsnæðismarkaði. Þó að Seðlabankinn héldi áfram að hækka vexti til að hemja eftirspurnarhliðina þá gengur það bara upp að vissu marki. Komi þessi staða upp þarf að einbeita sér í meira mæli að framboðshliðinni.

Ég veit ekki hvort Seðlabankinn gæti haft mikil áhrif þar. Hugsanlega væri hægt að beita sértækum úrræðum, til dæmis með því að byggingaverktakar fengju lán á hagstæðum kjörum – búa til einhvers konar lánaramma, en það þyrftu fleiri að koma að því verkefni en bara Seðlabankinn. En þetta er ekki einfalt mál þar sem tíma tekur að leysa framboðsvanda á húsnæði, hvaða ráðum sem beitt er. En eitthvað af þessu tagi gæti örvað framboðshliðina án þess að ýta jafnframt undir eftirspurnarhliðina.“

Erna segir skipulagsmál líka spila inn í vegna þess að ein ástæða lítils framboðs íbúðarhúsnæðis virðist vera lóðaskortur. „Ég er ekki viss um að húsnæðisvandinn verði leystur með einhverjum einföldum ráðum. Ekki er hægt að horfa á einhvern einn – bara Seðlabankann eða sveitarfélögin eða ríkið. Allir helstu aðilar þurfa að koma að lausninni.

Svo er slæmt að þegar vandamálið er jafn alvarlegt og nú er orðið að þetta verður ekkert leyst á stuttum tíma. Seðlabankinn getur hækkað vexti mjög mikið án þess að bæta stöðuna. Ég verð að segja að ég öfunda alls ekki meðlimi peningastefnunefndar Seðlabankans vegna þeirra verkefnis nú,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.