Hlut­deild Stöðvar 2 í áhorfendahópi í aldurs­hópnum 12-80 ára minnkaði milli vikna úr 19,8 prósentu­stigum í 14 prósentu­stig. Þetta kemur fram íupp­lýsingum um vikulegar raf­rænar ljós­vaka­mælingar Gallup.

Þar kemur fram að dagana 11. til 17. janúar hafi meðal­fjöldi mínútna sem hver ein­stak­lingur horfði á Stöð 2 verið 102 mínútur. Í síðustu viku, vikunni á eftir, dagana 18. janúar til 24. janúar, var á­horfið komið niður í 77 mínútur, eða því sem nemur 25 mínútna mun.

Vikurnar á undan hafði hlut­deild Stöðvar 2 í á­horf­enda­hópi 12-80 ára á­horf­enda verið nokkuð stöðug. Vikuna 28. desember til 3. janúar var stöðin með 20 prósenta hlut­deild og var meðal­fjöldi mínútna sem hver horfði á stöðina þá 138 mínútur. Vikuna á eftir, 4. janúar til 10. janúar voru mínúturnar 101 en hlut­deildin svo gott sem hin sama; 19,9 prósent.

Líkt og fram hefur komið til­kynntu for­svars­menn Sýnar fyrr í mánuðinum að kvöld­fréttum Stöðvar 2 yrði læst, í fyrsta sinn síðan þær hófu göngu sína árið 1986. Þær eru því einungis í boði fyrir á­skrif­endur stöðvarinnar og stöðin því í fyrsta sinn al­farið á­skriftar­stöð.

Þór­hallur Gunnars­son, fram­kvæmda­stjóri fjöl­miðla Stöðvar 2, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið í síðustu viku að aug­lýsinga­tekjur væru ekki lengur að standa undir rekstri frétta­stofunnar líkt og verið hefði. Frétta­blaðið náði ekki tali af honum við vinnslu þessarar fréttar.

Þór­hallur sagðist í síðustu viku skilja upp­lifun þeirra sem upp­lifa breytingarnar sem nei­kvæðar. „Þeim finnst eðli­­lega vont að missa af kvöld­fréttum Stöðvar 2 sem við höfum haft í opinni dag­­skrá í ára­tugi,“ segir Þór­hallur.

Sagði hann frétta­stofuna myndu halda á­fram að sinna sama hlut­verki sínu. „Ég er sann­­færður um að flestir lands­­menn geri sér grein fyrir mikil­­vægi frétta­­stofunnar og trúi því að sem flestir hafi skilning á þessum að­­gerðum sem er ætlað að styrkja frétta­­þjónustu okkar.“

Stjórn Blaða­manna­­fé­lags Ís­lands gaf fyrr í mánuðinum út til­­­kynningu vegna á­kvörðunar for­svars­manna Sýnar. Sagði fé­lagið á­­kvörðunina vera „lægsta punkt í sam­­tíma­­sögu ís­­lenskra fjöl­­miðlunar,“ við það til­efni.