Færa má rök fyrir því að óskynsamlegt sé út frá áhættudreifingarsjónarmiði að stýring erlendra fjárfestinga sjóðanna sé í höndum of fárra aðila. „Ég tel óráðlegt að erlent eignasafn lífeyrissjóðanna í heild endurspegli skoðun of fárra eignastýringaraðila, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir þjóðarbúið. Samt sem áður tel ég vera svigrúm fyrir aukið samstarf við eignastýringu lífeyrissjóðanna til að ná niður kostnaði og byggja upp meiri sérþekkingu,“ segir Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins.

Björn Ágúst Björnsson, stjórnarformaður Lífsverks.

Björn Ágúst Björnsson, stjórnarformaður Lífsverks, skrifaði grein í Markaðinn fyrir viku þar sem hann hvatti lífeyrissjóði landsins til að koma á fót sameiginlegri skrifstofu sem myndi annast eignastýringu erlendis. Með þeim hætti væri kostnaður við erlenda eignastýringu fastur, en ekki sem hlutfall af eignum. Hann vísar til þess að þetta fyrirkomulag hafi reynst norska olíusjóðnum vel.

Björn Ágúst telur að með því megi spara mikla fjármuni, sérstaklega í ljósi þess að áhættulausir vextir eru við eða undir núll en meðalhlutfall umsýslukostnaðar íslenskra lífeyrissjóða virðist vera nálægt 0,7 prósentum af erlendum eignum á ári. Enn fremur muni umfang erlendra eigna lífeyrissjóða fara vaxandi á komandi árum.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir að umsýsluþóknun erlendra sjóða sé misjöfn eftir eignaflokkum og ólík á milli sjóða. Hún geti verið lægri en 0,7 prósent. „Hugsanlega mætti spara fjármuni með þessu fyrirkomulagi sem er gott fyrir sjóðfélaga. Á móti vegur að mögulega verða erlendar eignir sjóðanna meira einsleitar sem er ekki heppilegt. Svo er mikilvægt að hafa í huga að samstarf lífeyrissjóða á sviði eignastýringar stangast á við þá meginreglu í samkeppnisrétti að keppinautar á markaði eiga að vera sjálfstæðir. En allar hugmyndir á að nálgast á jákvæðan máta,“ segir hann.

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins.

Arnaldur er hlynntur því að lífeyrissjóðir útvisti eignastýringu til öflugra eignastýringarfélaga sem hafa getu til að byggja upp sérþekkingu í stýringu á ákveðnum eignaflokkum, á greiningu fjárfestingarkosta og aðferðum ábyrgra fjárfestinga. „Nú þegar er vísir að svona samstarfi. Frjálsi lífeyrissjóðurinn ásamt þremur öðrum lífeyrissjóðum útvistar eignastýringu til Arion banka, þar með talið eignastýringu á erlendum fjárfestingum. Landsbankinn sinnir eignastýringu fyrir tvo aðra lífeyrissjóði og Festa lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja eiga sameiginlega eignastýringarfélagið Jökla Verðbréf sem sinnir eignastýringu fyrir þessa tvo lífeyrissjóði. Með slíku samstarfi er hægt að ná stærðarhagkvæmni og ná þannig niður kostnaði til dæmis við greiningu fjárfestingarkosta og á umsýsluþóknunum vegna fjárfestinga í sjóðum hjá erlendum sjóðastýringarfyrirtækjum,“ segir hann.

Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs, segir sjálfsagt að skoða möguleika á samstarfi við eignastýringu. „Þess má þó geta að norski olíusjóðurinn er ekki lífeyrissjóður. Hann er fjárfestingarsjóður norska ríkisins og sem slíkur einn sá stærsti í heimi. Eignir hans nema tæplega 34-földum heildareignum íslenskra lífeyrissjóða. Á því byggist hagkvæmni hans fyrst og fremst. Sjóðurinn er með samning við Norges bank um eignastýringu. Hún fer fram bæði í Noregi en einnig í útibúum Norges bank víða um heim. Kostnaður við eignastýringu sjóðsins er ekki fastur. Í skýringum við ársreikning hans kemur fram að um 38 prósent kostnaðar eru umsýslugjöld til ytri eignastýringaraðila og árangurstengdar þóknanir, það er annarra en Norges bank.“