Þrátt fyrir horfur um aukna skuldsetningu ríkissjóðs á næstu árum og töluvert umrót í heimsbúskapnum og á fjármálamörkuðum um allan heim hefur áhættuálag erlendra skuldbindinga ríkissjóðs haldist tiltölulega stöðugt á árinu. Fjármögnunarskilyrði fyrir erlendri lántöku ríkissjóðs virðast því almennt góð um þessar mundir. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans.

Samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun áranna 2021-2025 hækkar skuldahlutfall ríkissjóðs úr 30 prósent af landsframleiðslu árið 2019 og nær hámarki í 50 prósent af landsframleiðslu árið 2025.

„Skuldahlutfallið hækkar því töluvert á næstu árum þótt það fari ekki eins hátt og það gerði í kjölfar fjármálakreppunnar fyrir liðlega áratug,“ segir í Peningamálum.

Þótt áætlað sé að skuldahlutfallið nái hámarki árið 2025 þýðir það ekki að nafnvirði skulda ríkissjóðs sé þá orðið stöðugt eða fari lækkandi því áætlað sjóðstreymi ríkissjóðs er handbært fé frá rekstri enn neikvætt um 62 milljarða króna árið 2025 og hrein fjármögnunarþörf í kringum 100 milljarða króna.

Í Peningamálum segir að þegar farsóttin COVID-19 hefur hjaðnað og efnahagsumsvif taka við sér á ný þurfi að huga að því að vinda ofan af þessum aðgerðum svo að sjálfbærni opinberra fjármála sé ekki stefnt í voða.

„Eftir því sem skuldirnar eru hærri, vextir hærri og hagvöxtur minni, þarf ríkissjóður meira að reiða sig á hækkun skatta eða lækkun útgjalda nú eða í framtíðinni. Því eru þær ákvarðanir sem ríkissjóður þarf að taka mjög háðar því hver hagvöxtur verður að jafnaði. Þótt það skuldahlutfall sem ríkissjóður er talinn standa frammi fyrir árið 2025 sé eingöngu ¾ af því sem það var árið 2011 þegar það reis hvað hæst þarf einnig að hafa í huga að ekki er fyrirsjáanlegur einskiptis ávinningur eins og sá sem féll ríkissjóði í skaut árið 2016 vegna stöðugleikaframlags slitabúa föllnu fjármálafyrirtækjanna (sem nam liðlega 15 prósent af landsframleiðslu ársins 2016). Þá eru forsendur um efnahagshorfur næstu ára mjög óvissar,“ segir í Peningamálum.