Áhættuálag bandarískra hlutabréfa, munurinn á því hvað fjárfestar geta vænst að fá í ávöxtun umfram það að eiga áhættulaus ríkisskuldabréf, hefur ekki verið minni í áratug.

Sérfræðingar segja að það sé merki um að fjárfestar ættu að stíga varlega til jarðar við kaup á bandarískum hlutabréfum. Þau eru í methæðum eftir miklar hækkanir frá því í mars þegar COVID-19 breiddist um heiminn, að því er segir í frétt Financial Times.

Áhættuálagið fyrir S&P 500 vísitöluna er eins lágt og það getur farið, að því er greinendur Morgan Stanley skrifuðu í bréfi til viðskiptavina. Að þeirra mati fá fjárfestar ekki greitt nóg fyrir að taka áhættuna að eiga hlutabréf frekar en bandarísk ríkisskuldabréf.

Áhættulagið var 2,9 prósent í síðasta mánuði samanborið við 6,9 prósent í mars eftir lækkanir sem rekja má til óvissu vegna COVID-19. Hlutfallið var nær fjórum prósentum áður en heimsfaraldurinn reið yfir, samkvæmt útreikningum Morgan Stanleys.

Álagið er engu að síður hærra en í netbólunni árið 2001 þegar það var -2,8 prósent og í aðdraganda fjármálahrunsins árið 2008 þegar hlutfallið var 1,3 prósent.

Brett Nelson, greinandi hjá Goldman Sachs, sagði í síðasta mánuði að 2,9 prósent áhættuálag væri enn aðlaðandi og langt frá því sem var í netbólunni.

Horft til CAPE-hlutfallsins fyrr á þessu ári, þar sem tekið er tillit til efnahagssveiflunnar þegar litið er til markaðsvirðis í samhengi við hagnað (V/H), kom í ljós að verð höfðu ekki verið hærri í tvo ártugi, segir í fréttinni