Íslenska fyrirtækið AHA tekur þátt í verkefni á vegum Evrópusambandsins um það hvernig standa megi að flutningi á vörum með drónum og leigubílaþjónustu í ómönnuðum loftförum. Af öðrum sem taka þátt í verkefninu má nefna flugvélaframleiðandann Boeing, evrópsk flugmálayfirvöld og frönsku borgina Toulouse. Evrópusambandið leggur verkefninu til tæplega tvær milljónir evra, eða um 300 milljónir króna.

Þetta segja Maron Kristófersson og Helgi Már Þórðarson, stofnendur og aðaleigendur AHA, í samtali við Markaðinn. AHA þróar netverslunarkerfi og býður upp á dreifingu á vörum sem keyptar eru á netinu. Á meðal viðskiptavina eru Nettó og Pfaff og veitingastaðirnir Eldsmiðjan og Blackbox.

Maron segir að settur hafi verið saman hópur með eins breiða þekkingu á viðfangsefninu og mögulegt var til að geta dregið upp raunhæfa framtíðarsýn hvað drónaflug varðar. Aðspurður segir hann að óskað hafi verið eftir aðkomu AHA.

Tilraunir í fjögur ár

„Við höfum gert tilraunir með flutninga með drónum í fjögur ár. Á Íslandi er gott að gera tilraunir með dróna enda er allra veðra von. Víða erlendis gæti þurft að bíða nokkuð lengi eftir tilraunaflugi í roki og rigningu. Ísland er því fullkominn vettvangur til tilrauna af þessu tagi. Hvort það verði arðbært að reka drónaflug hér á landi þegar fram líða stundir á eftir að koma í ljós en það liggur í augum uppi að það verður arðbært erlendis,“ segir hann.

Að sögn Marons gerir flugvélaframleiðandinn Airbus ráð fyrir því að í París árið 2035 verði 20 þúsund ómönnuð loftför á flugi á klukkustund.
Fréttablaðið/EPA

Að sögn Marons gerir flugvélaframleiðandinn Airbus ráð fyrir því að í París árið 2035 verði 20 þúsund ómönnuð loftför á flugi á klukkustund. „Það hlýtur að fækka akandi bílum á sama tíma um 10–15 þúsund,“ segir hann. Fyrirtæki á borð við Alphabet, eiganda Google, vinni að því að þróa flugumsjónarkerfi til að stýra drónaflugi.

„Kínverjar eru þegar byrjaðir að prófa sig áfram með að ferja fólk með drónum og Kitty Hawk, sem stofnendur Google fara fyrir, hefur þróað hljóðláta sjálffljúgandi flugvél til að flytja fólk á milli staða,“ segir hann.

Maron bendir á að rafmagnseyðsla dróna sé hverfandi samanborið við bíl sem myndi sinna sama erindi. „Bíll er tvö tonn og flytur vörur sem eru mögulega innan við tvö til þrjú kíló. Dróni getur til dæmis verið ellefu kíló og borið svipaða þyngd af vörum. Þeir eru að sama skapi öruggari en bílar og mun hljóðlátari,“ segir hann.

Aðstoða Breta með dróna

Stofnendur AHA hafa metnað til að starfa á erlendri grundu. Fyrirtækið hefur til að mynda unnið með bresku heilbrigðisþjónustunni að því hvernig stofnunin gæti nýtt dróna í sinni þjónustu.

„Öll sú vinna sem leggja þarf í við þróun á netverslunarkerfi verður ekki nægilega arðbær á örmarkaði eins og Íslandi. Þess vegna leitum við út fyrir landsteinana þar sem AHA hefur heildarlausn sem inniheldur ekki bara netverslun og öll tengd verkferli heldur líka rauntímahugbúnað sem sér um allt ferlið eftir að pöntun hefur verið gerð þar til viðskiptavinur hefur tekið við henni. Í slíkri heildarlausn munu drónar leika lykilhlutverk. Spurningin er hvort sú framtíðarsýn verði að veruleika eftir fimm, sjö eða níu ár. Reynslan sem við höfum þegar öðlast á því sviði mun skipta sköpum þegar fram í sækir.

Stórar erlendar keðjur sem við höfum átt í viðræðum við og velta álíka miklu og dagvörumarkaðurinn hér heima átta sig á að vandinn við rekstur netverslunar felst líka í að sækja vörur, taka þær saman, og dreifa þeim á hagkvæman máta,“ segir Maron og nefnir að margar stórar verslanakeðjur erlendis hafa ekki náð að reka netverslanir með arðbærum hætti.

Maron líkir tilraunum fyrirtækisins með dróna við það þegar AHA hóf að prófa sig áfram með rafmagnsbíla.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Minnir á tilraunir með rafmagnsbíla

Maron líkir tilraunum fyrirtækisins með dróna við það þegar AHA hóf að prófa sig áfram með rafmagnsbíla. „Við keyptum fyrsta rafmagnsbílinn árið 2015. Við keyrðum hann ítrekað þar til bíllinn varð rafmagnslaus og lærðum hvernig ætti að greina og standa að rekstri bílanna. Nú eigum við 22 rafmagnsbíla. Það hefur sýnt sig að það er mun hagkvæmara en að reka bensínbíla. Þeir eru nákvæmari í akstri og því verða færri tjón, einkum þegar þeim er bakkað, og þeir eru ódýrari í rekstri; bæði hvað varðar viðhald og ekki þarf að greiða háan eldsneytiskostnað. Við keyrum mikið. Á hverjum degi keyrðum við aðeins lengra en til London og rafmagnsbílarnir hafa bráðum keyrt samanlagt tvisvar til tunglsins og til baka, eða um 1,5 milljónir kílómetra,“ segir hann.

Maron segir að fyrirtækið hafi verið rekið réttum megin við strikið í fyrra. „Nýsköpunarfyrirtækið hefur náð þeim áfanga áður en fyrirtækið hefur verið rekið í á tíunda ár, alltaf á sömu kennitölunni. Uppbyggingin hefur að mestu verið fjármögnuð með tekjum en við höfum fengið þrjá fjárfesta til liðs við okkur sem deila sömu gildum. Við höfum vandað valið í þeim efnum en þeir eru lítt þekktir hér á landi,“ segir hann.