Ágúst Einþórsson, bakari og einn stofnenda bakarísins Brauðs & Co, hefur selt allan eignarhlut sinn til meðstofnendanna Birgis Þórs Bieltvedt og Þóris Snæs Sigurjónssonar.

ViðskiptaMogginn greinir frá sölunni en í fréttinni kemur fram að hlutur Ágústs hafi numið 13 prósentum og að hann muni áfram starfa hjá fyrirtækinu.

„Þetta er búið að ganga vel og ég held að þetta sé góður tími til þess að selja bréfin. Persónulega held ég að þetta sé rétt skref fyrir mig og á sama tíma tel ég að þetta sé rétt skref fyrir Brauð & Co,“ segir Ágús, spurður um ástæðuna.

Sala í bakaríum Brauðs & Co nam ríflega 699 milljónum króna á síðasta ári og jókst um tæp 72 prósent frá fyrra ári þegar hún var um 408 milljónir króna. Brauð & Co hagnaðist um 6,9 milljónir króna í fyrra og dróst hagnaðurinn saman um 17,7 milljónir króna á milli ára. Jón Björnsson, fyrrverandi forstjóri Festar, tók fyrr á árinu sæti stjórnarformanns Brauðs & Co.

Fyrsta bakarí Brauðs & Co var opnað á Frakkastíg í miðbæ Reykjavíkur í byrjun árs 2016. Félagið rekur einnig bakarí í Mathöllinni við Hlemm, í Fákafeni, á Melhaga og við Akrabraut í Garðabæ en þau tvö síðarnefndu voru opnuð í fyrra.