Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) áætlar að hagvöxtur hér á landi verði milli 3,5 og 4 prósent á þessu ári. Hann verði að hluta drifinn af innlendri eftirspurn og að takmarkaðra leyti af utanríkisviðskiptum á sama tíma og áætlað er að verðbólga verði 7,4 prósent að meðaltali í ár. Þetta er meðal þess sem fram kemur í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kynnt var í Hannesarholti í gær.

Í samtali við Markaðinn segir Iva Petrova, yfirmaður Sendinefndar AGS, að mikilvægt sé að Seðlabankinn bregðist við vaxandi verðbólgu með hærri stýrivöxtum.

„Við teljum mikilvægt að Seðlabankinn hækki stýrivexti frekar og ástæðan fyrir því er að verðbólguvæntingar hafa verið töluvert hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans en þær hafa verið í kringum 5 prósent. Raunvextir eru neikvæðir og það þýðir að taumhald peningastefnunnar er tiltölulega laust,“ segir Iva og bætir við að það þýði að þörf sé á frekari aðgerðum af hálfu Seðlabankans.

Í áliti sendinefndarinnar kemur jafnframt fram að á meðan framleiðsluspenna sé enn til staðar myndi aðhaldssöm stefna í opinberum fjármálum hjálpa til við að ná verðbólgu í markmið.

Einnig kemur fram að þótt bankakerfið hafi staðist heimsfaraldurinn vel fari kerfisáhætta vaxandi.

„Bankarnir hafa nægt laust fé, eru arðbærir, búa við sterka eigin fjárstöðu og búa yfir viðnámsþrótti gagnvart áföllum,“ segir í áliti nefndarinnar.Þó hefur nefndin áhyggjur af aukinni hættu vegna hækkunar á húsnæðisverði.

„Skörp leiðrétting húsnæðisverðs gæti veikt efnahagsreikninga heimila og fjármálageirans. Hækkun húsnæðisverðs hefur einnig haft neikvæð áhrif á getu fólks til að kaupa eigið húsnæði, sér í lagi fyrir yngra fólk og þá sem tekjulægri eru. Vel útfærðar og samræmdar aðgerðir eru nauðsynlegar til að takast á við húsnæðisverðssveifluna,“ segir í álitinu.

Að mati nefndarinnar ætti að taka á áhættuþáttum tengdum húsnæðismarkaði með skilvirkum þjóðhagsvarúðartækjum sem munu vera studd af áframhaldandi auknu peningalegu aðhaldi. Núverandi reglur um greiðslubyrðarhlutfall ættu að gera þá kröfu til húsnæðislánveitenda að þeir beiti álagi á vexti í lánasamningum þegar greiðslugeta lántakenda er metin. Einnig mætti innleiða þak á skuldabyrðarhlutfall að mati nefndarinnar.

„Auka má hagkvæmni húsnæðis með því að draga úr reglubyrði í byggingageiranum og auka framboð húsnæðis. Til þess þarf að einfalda skipulagsreglur, létta á ferlum við öflun byggingarleyfa og innleiða einn vettvang fyrir leyfi og úttektir. Endurhanna ætti stuðning hins opinbera í húsnæðismálum. Markvissari stuðningur við fólk á leigumarkaði og áframhaldandi fjárfesting í félagslegu húsnæði ætti að stuðla að hagkvæmara leiguverði,“ segir í áliti nefndarinnar.

Að mati nefndarinnar ætti það áfram að vera markmið stjórnvalda og eftirlits Seðlabankans að tryggja hæfi eigenda bankanna.

„Þar sem bankahrunið er enn í fersku minni er nauðsynlegt að leggja ríka áherslu á mikilvægi orðspors fjárfesta og stjórnenda í bankakerfinu. Gagnsæi og jafnræði skiptir sköpum til þess að varðveita trúverðugleika allra sem í hlut eiga við sölu á bönkum í ríkiseigu,“ segir í álitinu.

Þá kemur fram að setja ætti skilyrði fyrir þátttöku fjárfesta og viðmið fyrir hæfi þeirra í regluverki er snýr að sölu banka í ríkiseigu til að draga úr orðspors- og stöðugleikaáhættu fyrir ríkið og fjármálakerfið.

„Í þessu samhengi ætti Seðlabankinn að fara yfir framtíðaráform um sölu banka í ríkiseigu til þess að tryggja að gætt verði að hæfi og heilindum mögulegra fjárfesta og að tekið sé með viðunandi hætti á öðrum varúðartengdum þáttum.“

Í álitinu kemur auk þess fram að sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hafi stutt við markmið um fjármálastöðugleika. Með aukinni samvirkni og heildrænni yfirsýn yfir fjármálakerfið hafi sameinuð stofnun náð að bregðast hratt og tímanlega við í upphafi faraldursins þó að áskoranir séu enn til staðar.

Komandi kjarasamningar eru tækifæri

Í áliti nefndarinnar kemur fram að komandi kjarasamningar veiti tækifæri til að stuðla að samkeppnishæfni og fjölbreyttara efnahagslífi, þó sé pattstaða í viðræðum um nýja kjarasamninga meðal innlendra áhættuþátta sem gætu valdið átökum á vinnumarkaði og truflunum í efnahagslífinu.

Í álitinu segir að það sé lykilatriði í komandi kjarasamningum að tryggja þátttöku, draga úr hættu á fátækt og stuðla að atvinnuöryggi.

„Það myndi einnig stuðla að nánara sambandi launa- og framleiðnivaxtar. Að lokum ættu kjarasamningarnir að færa fyrirtækjum og launþegum sveigjanleika til að semja um kjör sem endurspegla aðstæður á vinnumarkaði en einnig þætti sem eiga við um einstaka geira og fyrirtæki,“ segir í áliti nefndarinnar.