Snör viðbrögð stjórnvalda hafa dregið úr niðursveiflu í efnahagslífinu, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Slökun í aðhaldi ríkisfjármála og lækkun stýrivaxta í kjölfar efnahagsáfalla fyrr á árinu voru rétt hagstjórnarviðbrögð af hálfu stjórnvalda og hafa mildað höggið á hagkerfið.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að ríkisstjórnin hafi skapað forsendur til að örva hagkerfið á árinu 2019. Styrkar stoðir íslensks efnahagslífs og trúverðugleiki hagstjórnaraðila hafi leitt til þess að niðursveiflan sé nú mildari en ella. Hagkerfið sé í stakk búið til að taka við sér á ný.

Fram kemur í áliti sendinefndar að sjóðurinn spái um tveggja prósenta hagvexti hér á landi til meðallangs tíma. Hann reikni með hóflegum viðsnúningi á næsta ári en hagkerfið sé áfram í viðkvæmri stöðu.

Ferðaþjónustan hefur orðið fyrir áföllum á borð við fall Wow air og kyrrsetningar Boeing 737 Max flugvéla.
Fréttablaðið/Eyþór

Rifjað er upp í álitinu að Seðlabankinn lækkað stýrivexti um 0,15 prósentustig frá því í mars. Í apríl hafi náðst samkomulag um laun á vinnumarkaði – en ríkisstjórnin kom að málum – sem draga muni úr launahækkunum á næstu þremur árum.

Lífskjarasamningur dregur úr atvinnuleysi

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að lífskjarasamningurinn muni draga úr atvinnuleysi sem ella hefði orðið í ljósi minni umsvifa í ferðaþjónustu.

Í álitinu segir að ferðaþjónusta hafi drifið áfram hagvöxt síðustu fimm ár. Hún hafi hins vegar orðið fyrir áföllum meðal annars vegna gjaldþrots Wow air og kyrrsetningar Boeing 737 Max flugvéla. Minni umsvif í ferðaþjónustu hafi skapað óvissu um eftirspurn á innlendum markaði.

Fleiri sérhæfð störf

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á að hagkerfið þurfi á fleiri sérhæfðum störfum að halda. Efnahagslífið sé lítið og treysti á fáar atvinnugreinar og fá fyrirtæki og því sé það berskjaldað gagnvart áföllum. Í menntakerfinu séu tækifæri til umbóta, meðal annars með því að bæta þjálfun og menntun kennara og bæta menntun fyrir börn innflytjenda.