Húsvíkingurinn Agnes Árnadóttir hlaut í gær „ The Wista Norway Leadership Award" sem veitt voru af forsætisráðherra Noregs, Ernu Solberg.

Agnes Árna­dótt­ir er fram­kvæmda­stjóri og ann­ar stofn­enda ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæk­isins Brim Explor­er sem er staðsett í Tromsø.

Bátarnir eru bæði hljóðlátir og um­hverf­i­s­væn­ir.
Ljósmynd/ BrimExplorer

Brim Explorer er hvalaskoðunarfyrirtæki með um­hverf­i­s­væn­a og rafmagnsknúnna báta í notkun sem gerðir eru út til að fylgj­ast með norður­ljós­um og hvöl­um.

Agnes ólst upp við störf hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu North Sailing á Húsavík en faðir henn­ar, Árni Sig­ur­bjarn­ar­son og Hörður bróðir hans stofnuðu Norður­sigl­ingu á Húsa­vík árið 1995. Agnes tók virkan þátt í fjölskyldurekstrinum þar til hún flutti til Noregs árið 2008 þar sem hún hóf nám í stjórnmálafræði. Agnes hefur mikla ástríðu fyrir hafinu, loftslaginu og ferðamennsku og leggur áherslu á loftslagsvænar samgöngur.

Í ræðu sinni á verðlaunafhendingunni í gær deildi Solberg, forsætisráðherra reynslu sinni af ferð með Brim Explorer fyrr á þessu ári og talaði um getu fyrirtækisins til að laga sig að aðstæðum Covid-19. Ennfremur lagði hún áherslu á framlag Agnesar og Brim Explorers til sjálfbærni bláa hagkerfisins og grænna siglinga.