„Ég gæti varla verið spenntari fyrir þessu. Við gerum þetta á eins metnaðarfullan hátt og á við um aðrar beinar útsendingar á RÚV. Við verðum með lýsendur, sérfræðinga, stúdíóspjall, leikgreiningu, hægar endursýningar og allan þann pakka,“ sagði Haukur Harðarson, íþróttafréttamaður á RÚV, um fyrirhugaðar útsendingar ríkismiðilsins frá Íslandsmótinu í FIFA tölvuleikjaspili.

Engum þarf að koma á óvart að RÚV hyggist kosta öllu til, enda engin nýlunda að ríkismiðillinn sýni rausnarskap í verki með annarra manna fé. Reynslan sýnir enda að ef í harðbakkann slær er alltaf hægt að ná í smá viðbót í fjáraukalögum. Eitthvað þarf að gera við þá 4,7 milljarða sem ríkið ætlar að leggja RÚV til á árinu. Og ekki má gleyma 2,3 milljörðunum sem flæða inn í auglýsingatekjur. Því ekki að tjalda öllu til, sinna menningarhlutverkinu og sýna beint frá fólki að spila tölvuleik?

En þetta nýjasta útspil er þó ekki nema ein birtingarmynd af tilvistarkreppu RÚV á tuttugustu og fyrstu öldinni. Ríkisstofnunin býður neytendum upp á útvarp og sjónvarp í skylduáskrift, og hefur komið sér upp slíkum „lífsstíl“ að þurfa auglýsingatekjur til að ná endum saman. Til þess þarf RÚV samkeppnishæfa vöru og berst því við einkamiðlana um kaup á alþjóðlegu sjónvarpsefni. Það veldur svo verðhækkunum á eftirsóttustu bitunum sem auðvitað skilar sér að endingu út í áskriftarverð einkamiðlanna. Neytendur eru því ekki bara í skyldubundinni áskrift að RÚV, heldur greiða þeir líka aukagjald til einkamiðlanna vegna þeirrar verðbólgu sem ríkisstofnunin skapar á markaðnum.

Í furðulegri könnun Hagstofunnar kom fram að RÚV hefði „einungis“ um 16% hlutdeild á auglýsingamarkaðnum. Sú tala er auðvitað ekki marktæk, enda starfar RÚV alls ekki á öllum markaðnum. Nærtækara væri að segja að stofnunin hefði ríflega helmingshlutdeild á sjónvarps- og útvarpsmarkaði. Þetta vita forsvarsmenn RÚV auðvitað, en kusu samt að kosta deilingar á niðurstöðunum á samfélagsmiðlum. Ekki er gott að ráða í hvaða tilgangi svona vísvitandi afvegaleiðing umræðunnar á að þjóna. Öðru en því kannski að viðhalda óviðunandi og óheilbrigðu ástandi.