Tíu árum eftir að bandarísk stjórnvöld hlupu undir bagga með tveimur stórum og rótgrónum bílaframleiðendum þar í landi þegar fjármálakreppan stóð sem hæst vaknar aftur spurningin hvort þeir eigi sér viðreisnar von andspænis þeirri tæknibyltingu sem virðist vera handan við hornið. Munu hefðbundnir bílaframleiðendur finna sína fjöl þegar bílar verða í auknum mæli sjálfakandi í deilihagkerfinu, eflaust knúnir rafmagni? Financial Times veltir upp þessari spurningu.

Til að bílaframleiðendur geti staðist tímans tönn þurfa þeir að fjárfesta fyrir milljarða dollara til að þróa og framleiða sjálfakandi bíla og leita leiða hvernig megi reka stóran flota með arðbærum hætti.

Bílaframleiðendurnir sem bandarískir stjórnmálamenn réttu hjálparhönd árið 2008 voru General Motors og Chrysler. Ford þáði ekki neyðaraðstoð.

Aðhaldsaðgerðir breyta miklu

Stjórnendur í bílgreininni segja að aðhaldsaðgerðir sem ráðist var í fyrir tíu árum hafi gert það að verkum að stóru framleiðendurnir þrír geti selt hefðbundna bíla með hagnaði og fjárfest í framtíðarverkefnum sem fyrir áratug hafi fáir látið sér detta í hug að væru handan við hornið.

Al Koch, sérfræðingur í endurskipulagningu fyrirtækja hjá Alix­Partners, segir að fjárfestingin sem bílaframleiðendurnir þrír standi frammi fyrir til að geta keppt í breyttum heimi myndi reyna allverulega á efnahagsreikninga fyrirtækjanna með hætti sem hefði ekki sést frá tímum kreppunnar miklu. Stóra spurningin sé hvort stjórnendur fyrirtækjanna geti rekið þau með skynsamlegum hætti á sama tíma og þau þurfi að fjárfesta í auknum mæli í nýjum verkefnum og sala á bílum, sem sé sveiflukennd, sé að dragast saman.

Steve Rattner, sem leiddi björgunarstarfið í tíð Baracks Obama, segir að hugmyndin fyrir tíu árum hafi verið að endurskipuleggja bílaframleiðendurna í eitt skipti fyrir öll. „Við smelltum ekki bara varalit á svínið og skelltum því aftur í svínastíuna.“ Ríkissjóður hafi fjárfest fyrir 82 milljarða dollara, hafi fengið 72 milljarða til baka en 10 milljarðar dollara hafi lent á bandarískum skattgreiðendum sem hafi þó bjargað heilli atvinnugrein og einni milljón starfa.

Rattner segir að það sé nokkuð góður árangur miðað við aðrar ráðstafanir bandarískra stjórnvalda í fjármálakrísunni 2008, og skattgreiðendur fái enn greiddan arð vegna fjárfestingarinnar. „Við lækkuðum rekstrarkostnað þeirra þannig að þeir gætu hagnast á því að selja 10 eða 10,5 milljónir bíla á ári í stað þess að þurfa að selja 16 til 17 milljónir bíla.“

Komu á hnjánum … á einkaþotum

Það var fyrir tíu árum í þessum mánuði sem forstjórar Ford, General Motors og Chrysler fóru til Washington til að óska eftir ríkisaðstoð til að fyrirtækin gætu komist í gegnum fjármálahrunið 2008. Nema hvað þeir ferðuðust með bravúr á einkaþotum til að biðja um að fá háar fjárhæðir að láni. Eftir á að hyggja hefðu þeir mögulega getað sagt sér að það myndi valda fjaðrafoki meðal þingmanna og almennings.

Fyrirtækin áttu um sárt að binda og töpuðu milljörðum dollara á ári. Ford hafði til dæmis veðsett allar eigur sínar, þar á meðal vörumerkið sitt. Tveir útgjaldaliðir voru sem myllusteinn um háls risanna þriggja. Annars vegar kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu fyrrverandi starfsmanna á eftirlaunum og hins vegar óhagstæðir kjarasamningar sem neyddu fyrirtækin til að greiða starfsmönnum fyrir að sitja aðgerðalausir. Verst af öllu var þó að bandarískir neytendur vildu ekki bílana þeirra.

GM og Chrysler urðu gjaldþrota skömmu eftir að Obama settist í forsetastól og var björgunarféð nýtt til að halda þeim á floti á meðan reksturinn var endurskipulagður. Viðmælandi Financial Times segir að Fiat hafi fengið Chrysler á silfurfati. Ford hlaut ekki sömu örlög og hélt Ford-fjölskyldan velli í hluthafahópnum.

Gjaldþrot til góðs

Koch, sem stýrði endurskipulagningu General Motors, segir að segja megi að gjaldþrotameðferð hafi verið það besta sem hafi getað hent fyrirtækið. „Það gaf okkur færi á að ráðast í aðgerðir sem annars hefðu verið óhugsandi,“ segir hann. Seglin hafi verið dregin saman og það hafi lagt grunninn að glæsilegri endurreisn GM.

Bob Lutz, varaformaður stjórnar GM í björgunaraðgerðunum, segir að helsti kostur gjaldþrotameðferðarinnar hafi verið sá að hægt hafi verið að losna við vörumerki sem var ofaukið án þess að greiða bílasölum háar fjárhæðir í bætur. Hætt var framleiðslu Saturn, Hummer og Pontiac.

Annar kostur hafi verið að ríkisstjórnin hafi þrýst á verkalýðshreyfingu bílgreinarinnar til að leyfa bílaframleiðendum að hætta að greiða starfsmönnum sem sátu auðum höndum 95 prósent af launum þeirra vegna þess að bílaverksmiðju hefði verið lokað eða framleiðsla stöðvast tímabundið.

Tíu árum eftir að stjórnvöld kusu að bjarga bílaframleiðendum frá gjaldþroti eru áskoranirnar miklar en af öðrum toga en þá.