Þrjú stærstu flugfélög Bandaríkjanna, American Airlines, United Airlines og Alaska Air Group fjarlægja um þessar mundir afþreyingarskjái úr sætisbökum véla sinna sem notaðar eru til innanlandsflugs.

Mikill kostnaður fylgir viðhaldi, uppsetningu og endurnýjun á skjánum og eru sífellt fleiri farþegar farnir að nota eigin snjalltæki til afþreyingar. Bloomberg greinir frá. Önnur Bandarísk flugfélög líkt og Delta Airlines líta þó enn á afrþeyingarkerfin sem eftirsóknarverðan þátt hjá farþegum og þau markaðssetningartækifæri sem skjánum fylgja.

Kurt Stache, framkvæmdastjóri hjá American Airlines segir við Bloomberg: „Meira en 50% af farþegum American Airlines koma með tvö tæki með sér.“ Afleiðing af því sé að hleðslustöðvar og stærri farangursrými fyrir ofan sætin séu þau atriði sem farþegum flugfélagsins þyki eftirsóknarverðust.

Mikil þyngd í skjánum sem hefur áhrif á olíunotkun

Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri á þjónustuupplifunarsviði Icelandair, segir að verið sé að skoða nýjar lausnir í afþreyingarmálum. Icelandair vinnur nú flotastefnu sína til framtíðar og er skoðað samhliða pöntunum nýrra flugvéla hvernig afþreyingarkerfið skuli vera.

„Það sem við höfum haft að leiðarljósi í þeirri vinnu er að viðskiptavinir Icelandair hafa verið mjög ánægðir með afþreyingarkerfið okkar og telja það mikinn kost að geta nýtt sér það, en jafnframt að skjáunum í sætisbökunum fylgir mjög mikil þyngd, sem aftur hefur áhrif á hversu mikið af olíu við notum til að fljúga vélinni. Þar með eykst útblásturinn.“

Þráðlaus afþreyingarbúnaður í kortunum

„Mjög flott afþreyingarkerfi fyrir flugvélar eru nú að koma sem eru þannig að það er búnaður í hverri vél sem hægt er að tengjast og sækja þaðan afþreyingu í formi kvikmynda, sjónvarpsþátta, hljóðbóka, tölvuleikja og þess háttar í eigin tæki.

Þetta finnst okkur mjög spennandi kostur, því þrátt fyrir að afþreyingarkerfið okkar sé mjög vel nýtt, sjáum við líka að langflestir farþegar okkar ferðast með sín eigin snjalltæki og hafa jafnvel hlaðið niður efni fyrir ferðina,“ segir Birna Ósk sem segir kannanir sýna að farþegar vilji frekar nýta eigin tæki til afþreyingar ef þeir hafi kost á.

Lausnir líkt og þessar verði til prófunar um borð í völdum vélum á næstunni hjá Icelandair til að sjá hvernig það komi út.