Mikill vöxtur í umsvifum Cred­it­info í Afríku var meðal þess sem orsakaði stórbætta af­komu fyrirtækisins á síðasta ári, segir Reynir Grétarsson, aðaleigandi og stjórnarformaður Creditinfo. Um 10% af tekjum fyrirtækisins á síðasta ári mátti rekja til starfseminnar í Afríku. Vöxtur umsvifa í Afríku gæti orðið ævintýralegur á næstu áratugum, segir Reynir.

Creditinfo hagnaðist um 3,38 milljónir evra á árinu 2019, sem var meira en tvöföldun frá árinu áður.

Þrátt fyrir að mikill hagvöxtur hafi mælst í mörgum ríkjum Afríku á síðustu árum er margt sem stendur vexti smærri og meðalstórra fyrirtækja álfunnar fyrir þrifum. Fjárfesting er að miklu leyti afmörkuð við stór verkefni á borð við uppbyggingu innviða og auðlindanýtingu.

Í þróuðum hagkerfum eru smá og meðalstór fyrirtæki jafnan aflvaki hagvaxtar og atvinnusköpunar. Víða um Afríku er því verk að vinna við uppbyggingu innviða og upplýsingakerfa er snúa að fjármögnun smærri fyrirtækja.

„Til þess að fjármálakerfi virki þarf þrjá hluti; greiðslumiðlun, eignaskráningu og aðgang að fjárhagsupplýsingum,“ segir Reynir. Víða sé það svo að svokallaðar smáfjármögnunarlausnir (e. micro­financing) séu eina leið einyrkja og smærri fyrirtækja til að leita sér fjármögnunar.

Vegna þess að mikill skortur sé á upplýsingum um skilvísi og fjárhagsstöðu séu slík lán oft veitt á vöxtum sem mælast í hundruðum prósenta.


Mikil vanskil kalla á okurvexti


Reynir segir að í samtali við bankastjóra frá Fílabeinsströndinni hafi komið fram að vanskil einstaklinga, einyrkja og smærri fyrirtækja væru vanalega í kringum 80% þar í landi. Þar af leiðandi þurfi að bæta upp fyrir þær afskriftir með himinháum vöxtum.

Það sem nýtist okkur er að við komum af litlum markaði þar sem hlutirnir mega ekki kosta of mikið.

Með betri fjárhagsupplýsingum geti fjármálafyrirtæki álfunnar tekið betri ákvarðanir um fyrirgreiðslu til viðskiptavina sinna, sem mun síðan leiða af sér betri kjör og þar með hraðari uppbyggingu fyrirtækja og öflugra atvinnustig.

Reynir nefnir að erlend fyrirtæki hafi veigrað sér við að fara inn á markaði í Afríku. „Það sem nýtist okkur er að við komum af litlum markaði þar sem hlutirnir mega ekki kosta of mikið.“ Þegar Credit­info hóf innreið sína á markaði í Austur-Evrópu á síðasta áratug hafi sömu kraftar unnið með fyrirtækinu og nú í Afríku, þar sem lausnir samkeppnisaðila voru einfaldlega miklu dýrari.


30% árlegur vöxtur næstu 20 árin


Heildartekjur Creditinfo á árinu 2019 námu um 46,7 milljónum evra, en þar af var um tíundi hluti vegna starfsemi í Afríku. „En þess hluti starfseminnar vex miklu hraðar en allt annað hjá okkur. Það má vel búast við 30% árlegum tekjuvexti í Afríku næstu tvo áratugina,“ segir Reynir.

Sem stendur er Creditinfo með starfsemi í Keníu, Tansaníu, Senegal, Fílabeinsströndinni, Gíneu-Bissaú, Malí, Búrkína Fasó, Níger, Benín, Tógó og Marokkó. Í síðastnefnda landinu festi Creditinfo kaup á fyrirtæki síðla árs 2015 og tókst að tvöfalda veltu á ríflega þremur árum og nam 2,8 milljónum evra 2019. Í Keníu tókst að tvöfalda veltu á einu ári og hljóðaði rekstrarhagnaður upp á 500 þúsund evrur árið 2019.


Bakslag leiðir af sér byltingu


Nokkurt bakslag kom í starfsemi Creditinfo í Afríku vegna farsóttarinnar sem hóf reið sína yfir heiminn í mars á þessu ári. Notkun lausna Creditinfo dróst saman um 50–80% þegar verst var. Reynir bendir á að enn sem komið er sé nauðsynlegt að gera sér ferð í bankaútibú til að nýta sér þjónustu fyrirtækisins í flestum ríkjum Afríku.

Þegar útgöngubanni var komið á í Afríku líkt og víða um heim hafi verið einsýnt að notkunin myndi minnka: „En þetta er strax farið að jafna sig aftur og ég held að atburðir síðustu mánaða muni mjög hraða innleiðingu stafrænna lausna í bankaþjónustu í mörgum Afríkuríkjum. Á síðustu árum höfum við séð slíkar byltingar þjóta áfram miklu hraðar þar en á öðrum stöðum,“ segir hann.