Hlutabréf í leigubílaþjónustunni Uber lækkuðu um meira en níu prósent í verði þegar hlutabréfamarkaðurinn í New York opnaði í dag, á öðrum degi viðskipta með bréfin. Hlutabréfaverðið hefur þannig fallið um samtals fimmtán prósent síðan félaginu var fleytt á markað á föstudag.

Hlutafjárútboð Uber, sem var það stærsta í Bandaríkjunum frá því að hlutabréf Alibaba voru skráð á markað árið 2014, olli talsverðum vonbrigðum og lækkuðu bréfin um tæplega átta prósent í verði á fyrsta viðskiptadegi síðasta föstudag.

Dara Khosrowshahi, forstjóri Uber, kenndi meðal annars óróleika og óvissu vegna viðskiptadeilna Bandaríkjanna og Kína um gengislækkunina á föstudag en deilurnar hafa sett mark sitt á hlutabréfamarkaði víðs vegar um heim síðustu daga. Þannig lækkaði S&P 500 vísitalan um tvö prósent í liðinni viku og gera greinendur ráð fyrir frekari lækkunum á næstu dögum, eftir því sem fram kemur í frétt Financial Times.

Endanlegt gengi í hlutafjárútboði Uber var 45 dalir á hlut sem var í neðri mörkum verðbilsins - 44 til 50 dalir á hlut - sem fjármálaráðgjafar félagsins höfðu ákveðið í aðdraganda útboðsins. Gengi bréfanna fór niður í 38 dali á hlut þegar markaðir opnuðu vestanhafs fyrr í dag.