Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að til lengri tíma auki kaup Icelandair Group á WOW air, sem tilkynnt var um fyrr í dag, líkurnar á því að ferðaþjónustan fullorðnist án verulegra skakkafalla.

„Þessi tíðindi eru til þess fallin að auka trú á því til skemmri tíma að okkar mikilvægasti vaxtarbroddur, ferðaþjónustan, muni ganga stóráfallalaust. Vissan um framboð þennan veturinn fyrir ferðamenn sem hingað koma er orðin meiri,“ nefnir Jón Bjarki í samtali við Fréttablaðið.

„Ég held að traust og trú á greininni, sem ætti að smitast almennt í aukna trú á efnahagshorfum eða í það minnsta minni ótta um skammtímaáföll, ætti að speglast yfir á markaði og atvinnulífið í heild.

Það hefur sýnt sig að ferðaframboðið til skemmri tíma hefur talsverð áhrif á eftirspurnina og þar með á skammtímaþróun í geiranum eins og hann leggur sig,“ bætir hann við.

Greint var frá því skömmu fyrir hádegi í dag að stjórn Icelandair Group hefði gert samning um kaup á öllu hlutafé í WOW air. Eru kaupin meðal annars gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Verða flugfélögin áfram rekin undir sömu vörumerkjum en sameiginleg hlutdeild þeirra á markaðnum yfir Atlantshafið er um 3,8 prósent.

Jón Bjarki segist hafa skrifað um það í þjóðhagsspá Íslandsbanka fyrir ríflega mánuði að 2019 yrði líklega ár sameininga og hagræðingar. „Þessi umræddu kaup eru alveg dýrari týpan á því. Maður sá kannski fyrir sér að smærri fyrirtækin sameinuðust og jafnvel sum hver heltust úr lestinni. Ef maður horfir lengra fram í tímann eykur þetta líkurnar á því að greinin fullorðnist án verulegra skakkafalla,“ nefnir hann.

Flugfélög víða um heim hafa þurft að glíma við hækkandi olíuverð og lækkandi flugfargjöld á undanförnum misserum og hefur afkoma í fluggeiranum versnað af þeim sökum nokkuð hratt. Hafa forstjórar fjölmargra flugfélaga sagt að farmiðaverðið sé ekki sjálfbært til lengdar.

Jón Bjarki segir það hafa vakið athygli sína hvað miðaverðið hafi haldist lágt þrátt fyrir að bæði þeir sem starfa á markaðinum og fylgjast með honum eru sammála um að það geti vart gengið til lengdar.

„Ef velja ætti á milli þess að bæta horfur greinarinnar til skemmri tíma og þar með auka líkurnar á því að hagkerfið standi nokkuð styrkum fótum á komandi misserum eða þess að hafa farmiðaverðið áfram í sögulegum lægðum, þá tel ég að síðarnefndi kosturinn sé ákjósanlegur fórnarkostnaður.

Ég tel að samkeppnin á flugmarkaði verði áfram veruleg og ferðakostnaður okkar til útlanda hagfelldur í sögulegu ljósi. Það eru fleiri flugfélög um hítuna, sérstaklega á helstu flugleiðunum,“ nefnir Jón Bjarki.

Frétt Fréttablaðsins: Icelandair kaupir WOW air