„Góður árangur náðist hjá Origo á öðrum ársfjórðungi 2021. Samanburður við fyrra ár er vissulega erfiður sökum breytinga í efnahagslífinu, sem urðu á sama fjórðungi síðasta árs. Fjórðungurinn er 13,6 prósent yfir veltu síðasta árs. Veltuaukningu má að mestu leyti rekja til sölu hjá notendabúnaði og áframhaldandi aukningu hjá hugbúnaðarstarfsemi félagsins. Á sama tíma dróst Innviðasala áfram saman, segir Jón Björnsson forstjóri Origo, í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar kemur einnig fram að rekstrarafkoma hafi verið góð á fjórðungnum og að félagið hafi skilað 8,1 prósent EBITDA sem sé í takt við síðustu fjórðunga.

„Allir starfsþættir skila betri rekstrarárangri frá fyrra ári. Sá árangur byggir að mestu leyti á tekjusamsetningu og lægri rekstrarkostnaði. Þá er ánægjulegt að sjá sterkan fjórðung hjá Tempo í kjölfar metfjórðungs, sem að miklu leyti var drifin áfram af skilamálabreytingum Atlassian markaðstorgsins,“ segir Jón.

Í tilkynningunni fer hann yfir helstu þætti starfs fyrirtækisins eins og eflingu nýsköpunar, umhverfismálum, heilsu og vellíðan starfsfólks.

„Við höfum verið leiðandi þegar kemur að fjarvinnu, tekið ákveðið á málum er lúta að kolefnisspori og höfum hafið samstarf við Klappir um að bjóða viðskiptavinum Origo innan tíðar að fylgjast með vistspori fyrirtækisins í rauntíma. Í september mun félagið jafnframt kynna til leiks nýjan hugbúnað (Justly Pay) sem mun hjálpa minni og meðalstórum fyrirtækjum að komast í gegnum jafnlaunavottun með stafrænum hætti,“ segir Jón og að það sé hans von að fyrirtækið getið verið leiðandi í þróun lausna sem bæta samfélagið.