Útgerðarfélag Reykjavíkur hélt lokað útboð á víxlum í tveimur flokkum í gær fyrir milligöngu Arctica Finance. Þetta er annað útboð félagsins á árinu en það fyrra fór fram í ágúst síðastliðnum.

„Útboðið heppnaðist mjög vel eins og hið fyrra og bárust tilboð að fjárhæð 3.060 milljónum króna frá 13 aðilum,“ segir í tilkynningu.

ÚR, sem er kjölfestufjárfestir í Brim, ákvað að taka tilboðum fyrir 2.360 milljónir króna á 3,54 prósenta meðaltals vöxtum og voru þeir 0,28 prósent lægri en í fyrra útboðinu.

Aðaleigandi ÚR er Guðmundur Kristjánsson. Um er að ræða sjávarútvegsfyrirtæki sem leggur áherslu á arðsemi og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Með stefnumótandi fjárfestingum í aflaheimildum og traustum sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi og Grænlandi hefur félagið byggt upp eignir að verðmæti um 430 milljónir evra. Eiginfjárhlutfall félagsins var 55,7 prósent á miðju ári 2020.

Fréttablaðið/Anton Brink

„Árangurinn í þessu öðru útboði staðfestir áhuga fagfjárfesta á íslenskum sjávarútvegi. Öflug íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geta boðið fjárfestum frábæra fjárfestingakosti. ÚR hefur stefnt á það lengi að vinna með íslenskum fjárfestum við uppbyggingu á nútímalegum sjávarútvegi í fremstu röð í heiminum. Árangurinn í útboðinu sýnir að ÚR er á réttri leið,“ segir Runólfur V. Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR.

Rekstur félagsins er í dag þríþættur. Í fyrsta lagi er ÚR hefðbundið íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki, sérhæft í rekstri frystitogara. Í öðru lagi er félagið stærsti hluthafinn í Brim sem er eina skráða sjávarútvegsfélagið á Íslandi og í þriðji lagi vinnur félagið að nýsköpun og vöruþróun í sjávarútvegi í gegnum dótturfélagið ÚR Innovation.