Rannsóknarsetur verslunarinnar spáir því að velta smásöluverslunar yfir jólamánuðina, nóvember og desember, aukist að nafnvirði um 3,86 prósennt frá fyrra ári en í fyrra var aukningin 17,4 prósent þegar samkomu- og ferðatakmarkanir voru allsráðandi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri spá Rannsóknarseturs verslunarinnar um jólaverslun Íslendinga í ár.

Í spánni segir að þrátt fyrir að hún geri ekki ráð fyrir að jólaverslun taki stökk líkt og í fyrra geri hún ráð fyrir aukningu í innlendri verslun. Það sé því mat RSV að horfur séu áfram á góðri jólaverlsun í ár. Þá munu verðhækkanir, vöruskortur og vandræði tengd faraldrinum þó líklega hafa þær afleiðingar að aukningin verði minni en ella.

„Áætlað er að heildarvelta smásöluverslana verði í ár tæpir 115 milljarðar kr. yfir jólamánuðina, tæpum 5 milljörðum hærri en í fyrra á breytilegu verðlagi. Í ár gerir RSV ráð fyrir að verðlag í nóvember og desember verði 3,76 prósent hærra en á sama tíma í fyrra. Að raunvirði aukist veltan því um 0,1 prósent frá fyrra ári," segir í spánni.

Þá gerir spáin ráð fyrir því að verslun yfir jólamánuðina verði 59.715 krónum meiri á mann miðað við aðra mánuði ársins, sem gera rúmlega 238.800 krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu.