Stjórnendur og ráðgjafar Síldarvinnslunnar, sem hafa á undanförnum vikum unnið að undirbúningi að skráningu félagsins á hlutabréfamarkað í Kauphöllinni, stefna nú að því að boða til almenns hlutafjárútboðs dagana 10. til 12. maí næstkomandi, samkvæmt heimildum Markaðarins. Skráning útgerðarfyrirtækisins á markað mun í kjölfarið fara fram síðari hluta næsta mánaðar.

Frumkynningar á félaginu með fjárfestum, einkum lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum og fjárfestingafélögum, hófust í síðasta mánuði en á næstu dögum er boðað til frekari fundahalda þar sem fjárfestar munu fá ítarlegri upplýsingar í tengslum við útboðið, meðal annars hversu stór hlutur verður boðinn til sölu, á hvaða verði og eins hvaða hluthafar í Síldarvinnslunni ætli að selja.

Ljóst er að fjórðungshlutur í félaginu verður að lágmarki seldur í útboðinu og þá hefur eins komið fram í máli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja sem heldur utan um 45 prósenta hlut, að útgerðarrisinn muni selja eitthvað af sínum bréfum í Síldarvinnslunni. Aðrir helstu hluthafar eru Kjálkanes, sem er í eigu einstaklinga sem einnig eiga útgerðina Gjögur, með ríflega 34 prósenta hlut, en þriðji stærsti hluthafinn er svo Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað.

Rætt hefur verið um að virði Síldarvinnslunnar kunni að vera um eða yfir 100 milljarðar króna sem þýðir að fjórðungshlutur í fyrirtækinu yrði þá seldur á um 25 milljarða króna. Til samanburðar er markaðsvirði Brims, sem er í dag eina útgerðarfyrirtækið í Kauphöllinni, um 106 milljarðar.

Samkvæmt nýjum ársreikningi Síldarvinnslunnar var hagnaður af rekstri hennar á síðasta ár um 39,3 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um fimm milljarða króna, og hélst nokkuð stöðugur frá fyrra ári þegar hagnaðurinn var 40,5 milljónir Bandaríkjadala. Rekstrartekjur fyrirtækisins minnkuðu um 6 milljónir dala og námu 184 milljónum dala.

EBITDA-framlegð félagsins var 32,1 prósent og nam átta milljörðum króna. Mælt í erlendri mynt dróst EBITDA Síldarvinnslunnar saman um 6,5 prósent frá árinu 2019. Eiginfjárhlutfall samstæðu Síldarvinnslunnar var 68 prósent við lok árs 2020 og eigið fé félagsins um 49 milljarðar.