Hlutabréf í Arion banka verða seld á bilinu 73 til 75 krónur eða sem samsvarar genginu 0,65 til 0,67 sinnum bókfært virði eigin fjár bankans í hlutafjárútboði hans sem lýkur á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

Þar segir að áskriftir hafi borist á umræddu verðbili og hærra umfram þá hluti sem eru í boði í grunnstærð útboðsins. Grunnstærðin er, sem kunnugt er, á bilinu 22,6 til 36,2 prósenta eignarhlutur miðað við útistandandi hlutafé.

Í aðdraganda hlutafjárútboðsins hafði verið tilkynnt að útboðsgengið yrði á bilinu 0,6 til 0,7 miðað við eigið fé bankans.

Í tilkynningu Arion banka segir jafnframt að vogunarsjóðurinn Attestor Capital íhugi að selja þriggja prósenta hlut í bankanum.

Er jafnframt tekið fram að seljendurnir, Kaupþing og Attestor, hafi hvorki samþykkt framkomin tilboð né tekið ákvörðun um endanlegt útboðsverð, auk þess sem áskriftum kunni að vera breytt.

Almennu útboði hér á landi og í Svíþjóð lýkur klukkan 15 að íslenskum tíma í dag en reiknað er með að útboði fyrir fagfjárfesta ljúki á morgun, fimmtudag, klukkan 12.

Fram kom í tilkynningu frá bankanum í morgun að fjárfestar hefðu síðasta fimmtudag verið búnir að skrá sig fyrir öllu því hlutafé í boði er í grunnstærð útboðsins auk stækkunarheimildar. Er það að lágmarki um 41 prósents hlutur í bankanum.

Frétt Fréttablaðsins: Meta Arion allt að 56 prósent yfir útboðsgengi