Lággjaldaflugfélagið Play stefnir á að hafa 545 starfsmenn í vinnu árið 2024 og að afleidd störf verði um 1.400. Ráðgert er að flugfélagið flytji um 440 þúsund ferðamenn til landsins það ár og að þeir muni samanlagt eyða yfir 50 milljörðum króna í íslenska hagkerfinu. Þetta kemur fram í fjárfestingakynningu.

Fram kom á vef Fréttablaðsins í morgun að Play hyggist afla 33-36 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 4 til 4,4 milljarða króna í hlutafjárútboði sem mun hefjast að morgni fimmtudagsins 24. júní og ljúka daginn eftir klukkan 16. Í kjölfarið verði félagið skráð á First North-hliðarmarkaðinn.

Fram kemur í fjárfestingakynningunni að árið 2023 stefni Icelandair á fá 6,4 senta í tekjur á hvern sætiskílómetra (RASK) en kostnaður án eldsneytis verði 4,7 á hvern sætiskílómetra (CASK). Play horfir til þess að tekjurnar á sama tíma verði 5,1 sent á hvern sætiskílómetra en kostnaðurinn við hann verði 3,6 sent. Miðað við það yrði framlegðin 1,3 sent hjá Icelandair en 1,5 sent hjá Play.

Samkvæmt fjárfestakynningunni er reiknað með að tekjur Play verði í ár 21 milljón dala og að félagið muni tapa 15 milljónum dala. Árið 2022 er talið að tekjurnar verði 170 milljónir dala og hagnaðurinn fjórar milljónir Bandaríkjadala, árið 2023 er spáð að tekjurnar verði 319 milljónir dala og hagnaðurinn 17 milljónir dala, árið 2024 verði tekjurnar 422 milljónir dala og hagnaðurinn 31 milljón og árið 2025 verði tekjurnar 509 milljónir dala og hagnaðurinn 43 milljónir Bandaríkjadala.

Talið er að sætanýtingin verði 72 prósent í ár og batni svo ár frá ári, verði 85 prósent árið 2020 og 89 prósent árið 2025.

Stærsti hluthafi Play er Birta lífeyrissjóður með 12,55 prósenta hlut, Fiskisund sem Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður flugfélagsins fer fyrir, á 11,86 prósenta hlut og Stoðir 8,37 prósent.

Fiskisund er einnig í eigu Höllu Sigrúnar Hjartardóttur og Kára Þórs Guðjónssonar.

Stærsti eigandi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 með 55,3 prósenta hlut, en þeir sem standa að því félagi eru meðal annars Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða og stjórnarformaður Símans, téður Einar Örn, og Örvar Kjærnested, fjárfestir.