„Skemmst er frá því að segja að aflandskrónurnar hafa farið hægt út,“ er haft eftir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra í ViðskiptaMogganum í dag um áhrif nýrra lagabreytinga sem heimila eigendum slíkra krónueigna að skipta þeim yfir í erlendan gjaldeyri og flytja úr landi.

Breytingarnar tóku gildi 5. mars síðastliðinn en um leið og aflandskrónunum var hleypt út lausum var bindiskylda á innstreymi nýs fjármagns á skuldabréfamarkaði færð niður í núll prósent.

Í ítarlegu viðtali í ViðskiptaMogganum í dag segir Már að þetta tvennt hafi unnið hvort upp á móti öðru.

„Við renndum blint í sjóinn með hvort það yrði mikið útflæði og hvort það kæmi nægilegt innflæði á móti vegna lækkunar bindiskyldunnar. Við vissum ekki hvort við þyrftum jafnvel að ganga á gjaldeyrisvaraforðann því við vorum búin að skuldbinda okkur til þess að láta þessar aðgerðir, sem fólust í því að hreinsa upp fortíðarvanda, ekki hafa of mikil áhrif á gengi krónunnar,“ nefnir hann.

Skemmst sé frá því að segja að aflandskrónurnar hafi farið hægt út. „Þeir sem hafa kost á því að endurfjárfesta án þess að fara í gegnum gjaldeyrismarkaðinn virðast í einhverjum mæli gera það. Það hefur orðið eitthvert innstreymi á skuldabréfamarkaðinn. Á sama tíma er krónan um tveimur prósentum sterkari en þegar þetta ferli hófst,“ segir Már.

Aðspurður hvort bindiskyldunni verði aftur beitt ef þörf krefur bendir seðlabankastjóri á að þótt óheftum fjármagnshreyfingum fylgi ýmislegt hagræði og að til lengri tíma sé opnun gagnvart umheiminum betri fyrir hagkvæmni og hagvöxt, þá fylgir því einnig áhætta sem geti hlaðist upp í fjármálakerfinu eða að mikið innstreymi fjármagns setji þjóðarbúið úr jafnvægi.
 
„Við þurfum að finna í eins miklum mæli og hægt er tæki sem geta dregið úr þessari áhættu. Þar með hvernig við útfærum peningastefnuna,“ segir Már meðal annars í viðtalinu.