Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið jákvæð um 30,7 milljarða króna í fyrra. Jafngildir það um 1,1 prósenti af landsframleiðslu. Til samanburðar var afkoman jákvæð um 13,9 milljarða króna árið 2017.

Þetta kemur fram í nýrri frétt á vef Hagstofu Íslands. Þar er bent á að bætt afkoma hins opinbera skýrist meðal annars af lægri vaxta- og tilfærsluútgjöldum. Þó verði að taka tillit til þess að árið 2017 var í reikningum sveitarfélaga gjaldfærsla fjármangstilfærslu til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32 milljarða króna.

Þá er áætlað að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 0,1 milljarð króna á fjórða fjórðungi síðasta árs sem er töluvert lakari afkoma en mælst hefur á ársfjórðungsgrunni að undanförnu.

Versnandi afkoma á fjórðungnum skýrist, að sögn Hagstofunnar, meðal annars af samdrætti í tekjum af virðisaukaskatti og tekjuskatti lögaðila.

Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 3,3 prósent á fjórða fjórðungi síðasta árs en vöxtur skatttekna mældist töluvert minni eða 0,5 prósent.

Á sama tímabili er áætlað að heildarútgjöld hins opinbera hafi aukist um 9,2 prósent. Launakostnaður hins opinbera vegur þar þyngst en gert er ráð fyrir að hann hafi aukist um 8,4 prósent frá sama ársfjórðungi fyrra árs.