Tryggingafélagið VÍS tapaði 394 milljónum króna á þriðja fjórðungi ársins samanborið við 910 milljónir á sama fjórðungi í fyrra.

„Þetta uppgjör sýnir vel sveifluna í rekstri tryggingafélaga. Á meðan níu mánaða uppgjörið okkar er framúrskarandi og eitt það besta frá skráningu með góðan hagnað og 12,4 prósenta arðsemi eigin fjár þá litast uppgjör þriðja ársfjórðungs m.a. af verri afkomu af skráðum hlutabréfum í eigu félagsins. Það varð til þess að við sendum frá okkur afkomuviðvörun í byrjun október,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.

„Þá er tjónahlutfall hærra en á sama tíma í fyrra sem skýrist að stærstum hluta af stærri tjónum og lækkun vaxta.“

Sé horft yfir fyrstu níu mánuði ársins nam hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.798 milljónum króna samanborið við 1.462 milljón króna hagnað á sama tímabili árið 2018. Ávöxtun fjáreigna var 7,5 prósent samanborið við 5,4 prósent á sama tímabili í fyrra og samsett hlutfall var 99,3 prósent samanborið við 96,9 prósent á sama tímabili árið 2018.

Uppfærð afkomuspá félagsins gerir ráð fyrir að samsett hlutfall fyrir árið 2019 verði 99,0 prósent og að hagnaður fyrir skatta verði um 2,5 milljarðar króna.