Afkoma Skeljungs á fjórða fjórðungi síðasta árs var nokkuð yfir væntingum greinenda IFS og hagfræðideildar Landsbankans. Hagnaður félagsins nam 77 milljónum króna á fjórðungnum borið saman við eins milljónar króna tap á sama tíma árið 2018.

Til samanburðar höfðu greinendur IFS spáð tapi hjá félaginu upp á 96 milljónir króna á síðustu þremur mánuðum ársins 2019 og þá hljóðaði spá hagfræðideildar Landsbankans upp á 25 milljóna króna hagnað.

Framlegð Skeljungs nam 2.046 milljónum króna á fjórða fjórðungi síðasta árs og hækkaði um ellefu prósent á milli ára. Þá nam hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 512 milljónum króna á tímabilinu og jókst alls um ríflega 42 prósent frá sama tímabili árið áður.

Var haft eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Skeljungs, í afkomutilkynningu félagsins að síðasta ár hefði verið mjög gott rekstrarár, bæði á Íslandi og í Færeyjum. Sjóðstreymi félagsins á árinu hefði verið sterkt og það hefði auk þess náðst góður árangur í því að draga úr fjárbindingu samstæðunnar og lækka vaxtaberandi skuldir.

Í viðbrögðum hagfræðideildar Landsbankans við fjórðungsuppgjörinu, sem Markaðurinn hefur undir höndum, er bent á að framlegð félagsins hafi verið í samræmi við spá deildarinnar en rekstrarkostnaður hafi hins vegar verið lægri en gert hafi verið ráð fyrir.

„Smásöluáætlun félagsins er hafin og verður áhugavert að sjá þróunina á komandi misserum, sem ásamt orkuskiptum og fasteignaþróunarverkefnum verða stærstu mál næsta árs,“ segja greinendur Landsbankans.

Stjórnendur Skeljungs gera ráð fyrir að EBITDA ársins verði á bilinu 3.400 til 3.700 milljónir króna en hún var 3.421 milljónir króna á síðasta ári. Spáir hagfræðideild Landsbankans því að afkoman verði yfir miðju bilsins. Í hvorum endanum árið endi muni þó væntanlega ráðast af því hversu vel gangi að aðlaga smásölu að félaginu í bland við hefðbundna áhættuþætti.

Í viðbrögðum IFS við uppgjöri Skeljungs er tekið fram að afkoman hafi verið góð á fjórðungnum og mikil tækifæri séu fyrir hendi fyrir félagið á þessu ári. Engu að síður séu efnahagshorfur á Íslandi ekki mjög bjartar. Spáð sé litlum hagvexti en auknu atvinnuleysi. Góð afkoma af færeyska hluta rekstrarins geri félagið að áhugaverðum fjárfestingarkosti.