Niðurfærsla á gengi fasteignasjóðsins Gamma Novus hefur áhrif á fjárfestingastarfsemi Sjóvá- Almennra trygginga. Áhrifin verða neikvæð um 155 milljónir króna.

„Endurmat á virði Gamma Novus, óskráðs fasteignasjóðs, sem tilkynnt var um í morgun leiddi til þess að gengi sjóðsins var fært verulega niður. Áhrif þessarar niðurfærslu á afkomu af fjárfestingastarfsemi Sjóvá- Almennra trygginga er neikvæð um 155 milljónir króna,“ segir í tilkynningu frá tryggingafélaginu.

Kvika banki greindi frá því í morgun að staða tveggja fagfjárfestasjóða í rekstri GAMMA Capital Management væri umtalsvert verri en gert var ráð fyrir við kaup Kviku banka á sjóðastýringarfyrirtækinu Gamma. Hefur skráð gengi þeirra verið lækkað sem því nemur.

Um var að ræða sjóðinn Novus sem fjárfesti í nýbyggingum hérlendis og Anglia sem er fimm milljarða fasteignasjóður sem fjárfesti í íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði í London.

Í kjölfarið gaf Tryggingamiðstöðin út afkomuviðvörun vegna óvæntrar og verulegrar niðurfærslu á gengi fasteignasjóðs, og vegna verri afkomu af hlutabréfum.

Uppfærðar horfur um samsett hlutfall Sjóvár og afkomu ársins 2019 og næstu 12 mánuði verða kynntar á afkomukynningu félagsins fyrir þriðja ársfjórðung þann 31. október.