Hagnaður af rekstri Síldarvinnslunnar var fimm milljarðar króna á síðasta ári (39,3 milljónir Bandaríkjadala) og hélt nokkuð stöðugur frá síðasta ári þegar hagnaður var 40,5 milljónir Bandaríkjadala.

Ársreikningur Síldarvinnslunnar var samþykktur á stjórnarfundi fyrr í þessari viku. Greint er frá afkomu ársins 2020 á vefsíðu Síldarvinnslunnar.

EBITDA framlegð félagsins var 32,1% og nam átta milljörðum króna. Mælt í erlendri mynt dróst EBITDA Síldarvinnslunar saman um 6,5 prósent frá árinu 2019.

Eiginfjárhlutfall samstæðu Síldarvinnslunnar var 68 prósent við lok árs 2020.

„Annað árið í röð veiddist engin loðna með tilheyrandi tekjutapi fyrir félagið. Áhersla Síldarvinnslunnar síðastliðinn áratug hefur verið að fjárfesta í bolfiskheimildum og efla þann hluta starfsemi félagsins. Með því hefur tekist að verja afkomu- og tekjugrundvöll félagsins þegar að sveiflur í uppsjávarheimildum gætir líkt og gerst hefur í tilfelli loðnunnar síðastliðinn tvö rekstrarár,“ er haft eftir Gunnþóri Yngvasyni, framkvæmdastjóra félagsins vegna rekstrar ársins 2020.

„Fyrirhuguð er skráning á hlutabréfum Síldarvinnslunar í Kauphöll sem markar tímamót í starfsemi félagsins, eflir félagið og opnar fyrir fjárfestum. Nýafstaðin loðnuvertíð var vel heppnuð þó hún væri ekki stór í sögulegu samhengi. Veiðar og vinnsla gengu vel, allt var unnið til manneldis. Ljóst er að fjárfestingar síðustu ára í skipum og manneldisvinnslu hafi tryggt hámarks verðmætasköpun,“ er jafnframt haft eftir Gunnþóri.