A hluti Reykjavíkurborgar var rekinn með tæplega sex milljarða króna tapi á síðasta ári, en þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir 2020. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir ríflega 1,5 milljarða króna rekstrarafgangi.

Líkt og í tilfelli ríkissjóðs drógust skatttekjur borgarinnar nokkuð saman, en kostnaður keyrði að sama skapi víða fram úr áætlunum, líkt og kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar vegna uppgjörsins:

„Rekstrarniðurstaða A hluta skýrist einkum af 2.727 milljóna lægri skatttekjum en áætlun gerði ráð fyrir og að tekjur af sölu byggingarréttar voru 3.217 milljónum undir áætlun. Launakostnaður var 1.714 milljónum yfir áætlun og þá var annar rekstrarkostnaður 1.165 milljónum yfir áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 5.940 milljónum en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 2.018 milljónum“

Þrátt fyrir að hafa verið undir áætlun, þá jukust skatttekjur borgarinnar um 2,5 milljarða króna frá árinu 2019. Heildartekjur A hluta borgarinnar jukust um 5,5 milljarða og námu um 128,7 milljörðum króna, samanborið við 123,4 milljarða króna árið 2019.

Skuldir A hluta standa nú í um 123 milljörðum, á meðan samanlagðar skuldir A og B hluta eru nú meira en 386 milljarðar og jukust um 41 milljarð frá síðasta ári.

Til B hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, svo sem Orkuveitan og Faxaflóahafnir. Rekstrarniðurstaða A- og B hluta Reykjavíkurborgar var samanlagt neikvæð um 2,8 milljarða en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 11,9 milljarða.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A hluta og B hluta. A hlutinn inniheldur starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð.

„Helstu frávik frá áætlun A- og B hluta má rekja til lægri tekna B hluta fyrirtækja vegna Covid-19 áhrifa, gjaldfærslu gengismunar hjá Orkuveitu vegna veikingar krónunnar auk frávika í A hluta,“ segir í tilkynningu borgarinnar.