Framlegð af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur jókst um 4 prósent milli ára, en hagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var um 20,8 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Um er að ræða aukningu upp á 800 milljónir króna milli ára á tímabilinu.

Rekstrartekjur voru ríflega 35 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 1,5 milljarð frá sama tímabili á síðasta ári. Mestu munaði þar um söluaukningu á heitu vatni, en rekstrartekjur vegna heitavatnssölu hækkuðu um 1,2 milljarða og námu liðlega 10 milljörðum króna.

Fram kemur í tilkynningu að fjárfestingar hafi verið alls 11,4 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs: „Helstu fjárfestingar tímabilsins tengjast uppbyggingu og viðhaldi veitukerfanna – vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu og rafveitu - fjárfestingu í nýjum borholum á Hengilssvæðinu ásamt tengingu heimila í Árborg og Reykjanesbæ við ljósleiðara. Þá er mikill kraftur í viðskiptaþróun Carbfix,“ segir í tikynningunni.

„Við ákváðum strax í fyrravetur að ráðast í sérstakar viðspyrnufjárfestingar vegna kórónuveirunnar. Viðhaldsfjárfestingar og efling og stækkun veitukerfanna eru veigamestar í ár en nú fer líka að líða að framkvæmd í einu stærsta fjárfestingaverkefni okkar um hríð; uppfærslu á 160.000 orkumælum sem eru á heimilum og hjá fyrirtækjunum á veitusvæðum okkar en gömlu mælunum verður skipt út fyrir svokallaða snjallmæla,“ er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR.