Kvika banki er í góðri stöðu til þess að mæta þeirri óvissu sem ríkir í efnahagsmálum vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Fjárfestingarbankinn hefur frá áramótum dregið umtalsvert úr fjármögnun verðbréfa á markaði og þá er lánasafn bankans tiltölulega lítill hluti af heildareignum hans.

Þetta er á meðal þess sem fram kom í kynningu Marinós Arnar Tryggvasonar, forstjóra Kviku, á aðalfundi bankans sem haldinn var síðdegis í gær.

Samkvæmt glærukynningu Marinós var afkoma Kviku banka fyrir skatta umfram áætlanir á fyrstu tveimur mánuðum ársins en það skýrist að stórum hluta af aukningu í hreinum þóknanatekjum.

Afkomuspá fjárfestingarbankans fyrir árið er óbreytt, eftir því sem fram kom á fundinum, en eins og kunnugt er gerir bankinn ráð fyrir að hagnaður ársins fyrir skatta verði á bilinu 2,3 til 2,7 milljarðar króna sem samsvarar arðsemi eigin fjár upp á fimmtán til átján prósent.

Fram kemur í kynningu forstjórans um núverandi stöðu Kviku að lausafjárhlutfall bankans sé áfram sterkt og hafi - ásamt lausafjáreignum hans - hækkað frá því í lok síðasta árs. Jafnframt hafi umfram eigið fé bankans aukist á sama tíma.

Marinó Örn benti einnig á að fjármögnun verðbréfa á mörkuðum - sem vísar til þeirra verðbréfa sem bankinn heldur til áhættuvarna - hefði minnkað umtalsvert það sem af er ári. Þannig hefðu skráð hlutabréf farið úr fjórtán milljörðum króna í sex milljarða króna á tímabilinu. Bankinn hefði á þeim tíma aukinheldur ekki tekið á sig neitt fjárhagslegt högg vegna uppgjörs á samningum.

Í kynningunni er enn fremur tekið fram að lánabók bankans hafi staðið í um þrjátíu milljörðum króna í lok síðasta árs sem samsvarar um 29 prósentum af heildareignum hans. Lánasafnið sé jafnframt vel veðtryggt.

Gengi hlutabréfa í Kviku banka hefur hækkað mest allra félaga í Kauphöllinni það sem af er degi eða um 8,1 prósent í tæplega 130 milljóna króna viðskiptum. Gengið stendur nú í átta krónum á hlut en það hefur lækkað um 23 prósent á undanförnum fimm vikum.

Sigurður Hannesson, nýr stjórnarformaður Kviku banka.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, var kjörinn formaður stjórnar Kviku banka á fyrsta fundi nýrrar stjórnar sem haldinn var í kjölfar aðalfundarins í gær. Sigurður tók á aðalfundinum sæti í stjórninni í stað Kristínar Pétursdóttur sem hefur gegnt stjórnarformennsku í bankanum undanfarin tvö ár.

Aðrir stjórnarmenn eru þau Guðmundur Þórðarson fjárfestir, Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs hjá Sýn, Inga Björg Hjaltadóttir lögmaður og Guðjón Reynisson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri bresku leikfangaverslunarkeðjunnar Hamleys.